Rúnar Páll Sigmundsson þjálfari Fylkis var óhress með sigurmark HK í leik liðanna í Bestu deild karla í fótbolta en HK vann viðureign nýliðanna tveggja í Kórnum, 1:0.
Örvar Eggertsson skoraði markið á 84. mínútu en Rúnar telur að dæma hefði átt hendi á HK í aðdraganda marksins.
„Þeir skora mark þar sem við teljum að hafi verið um hendi að ræða. Dómarinn viðurkenndi það, en sagði að þetta hefði samt ekki verið brotleg hendi. Samt var hún hátt uppi, og ég næ bara ekki upp í svona dómgæslu, því miður. Ég átta mig ekki á þessu. Hann komst inn fyrir varnarmanninn okkar eftir að hafa fengið boltann í höndina. Það er svakalegt," sagði Rúnar við mbl.is eftir leikinn.
Fylkir hefur nú tapað þremur af fyrstu fjórum leikjum sínum og hefði virkilega þurft á að minnsta kosti einu stigi að halda í dag, eftir jafna baráttu við HK.
„Já, það er vont að tapa leikjum, sama hvort það er gegn HK eða öðrum liðum, og að við séum nýliðar skiptir engu máli. Þetta er töff.
Þetta var fín frammistaða í dag og ég er ánægður með það en grautfúll yfir því að tapa leiknum. Sigurinn gat dottið hvoru megin sem var. Við áttum fínar sóknir, sköpuðum okkur ágætis möguleika og fengum skotfæri fyrir utan teig, auk þess sem við náðum að halda HK-ingunum vel í skefjum.
Ertu sáttur við frammistöðu ykkar í fyrstu fjórum umferðunum, burtséð frá stigasöfnuninni?
„Já, ég er nokkuð sáttur. Við spiluðum fínan leik síðast, gegn sterku liði FH. Fín frammistaða og aftur núna. Við vorum ágætir að mörgu leyti á móti Víkingi, sérstaklega varnarlega, þótt við sköpuðum ekki mikið. Þar fengum við á okkur tvö mörk úr föstum leikatriðum.
Við þurfum bara að halda áfram, þetta er erfitt mót og allt saman sterkir andstæðingar. Við erum í lærdómsferli, eins og ég hef sagt áður. Þetta er búið og stutt í næsta leik, við getum haft áhrif á hann en ekki þennan, og þá er ekki um annað að ræða en að halda áfram," sagði Rúnar Páll Sigmundsson.