Rúnar Kristinsson, þjálfari KR í Bestu deild karla í knattspyrnu, vildi ekki tjá sig um vallaraðstæður í Hafnarfirðinum í dag þegar lið hans mætti FH á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika.
Til stóð að leikurinn myndi fara fram á Kaplakrikavelli en völlurinn er ekki tilbúinn eftir erfiðan vetur og í gær tilkynnti KSÍ að leikurinn hefði verið færður á Fylkisvöll í Árbænum.
Því var svo breytt seint í gærkvöldi og var leikurinn færður á frjálsíþróttavöllinn þar sem vallaraðstæður eru ekki upp á marga fiska.
„Ég ætla ekki að tjá mig um þetta og ég ætla að segja sem minnst,“ sagði Rúnar í samtali við mbl.is eftir leikinn í dag.
Rúnar var því næst spurður að því hvort honum fyndist óboðlegt að spila leiki í efstu deild á svona velli.
„Ég nenni ekki að ræða þetta,“ bætti Rúnar svo við en kom þó inn á að allt þetta flakk, á milli valla, hefði flækt undirbúning liðsins.
„Við vissum ekki hvort við myndum spila þennan leik á gervigrasi eða ekki. Það gerði undirbúninginn erfiðan því við vissum ekkert við hvaða aðstæður við ættum að æfa fyrir leikinn. Ég ætla samt ekki að fara vera með einhverjar afsakanir út af þessu.
Við höfum spilað á svona völlum í gegnum tíðina og við höfum spilað á verri völlum en þetta. Það réttlætir það hins vegar ekki, þó það hafi verið spilað á svona völlum áður, en þegar allt kemur til alls voru FH-ingarnir grimmari og sterkari og áttu sigurinn skilinn,“ bætti Rúnar við.