Eins gott að maður sé ekki hjartveikur

Örvar Logi Örvarsson með boltann í kvöld.
Örvar Logi Örvarsson með boltann í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Ágúst Gylfason, þjálfari Stjörnunnar, var skiljanlega svekktur þegar hann ræddi við mbl.is í kvöld eftir 2:3-tap liðsins gegn Val. Birkir  Heimisson skoraði sigurmark Vals á fimmtu mínútu uppbótartímans.

Andri Rúnar Bjarnason og Adam Ægir Pálsson komu Val í 2:0 í fyrri hálfleik, en Ísak Andri Sigurgeirsson skoraði tvö mörk fyrir Stjörnuna á síðustu tíu mínútunum. Valur átti hins vegar lokaorðið.

„Það var mikill kraftur í okkur síðustu 30. Við vorum í basli fyrstu 60 mínúturnar. Við héldum boltanum ágætlega en okkur var refsað þegar Valsmenn stigu inn í teiginn okkar. Ég er ánægður með þrjá kornunga leikmenn sem komu inn á. Þeir snéru leiknum okkur í hag.

Ágúst Gylfason var skiljanlega svekktur í leikslok.
Ágúst Gylfason var skiljanlega svekktur í leikslok. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Við vildum vinna leikinn og fá þrjú stig, en svo var okkur refsað í lokin af Völsurunum. Við náðu ekki að koma til baka eftir það,“ sagði Ágúst um leikinn og hélt áfram:

„Við erum ekki nógu öflugir í hjartanu á vörninni og við erum að fá of mikið af mörkum á okkur. Þegar krafturinn kom í okkur snérist leikurinn algjörlega við og það var bara eitt lið á vellinum síðustu 30.“

Ágúst vildi ekki tala of mikið um Ísak Andra, þrátt fyrir mörkin tvö, en hrósaði Frederik Schram í marki Vals. „Við getum tekið Ísak fyrir, en frammistaða allra síðasta hálftímann var frábær hjá okkur. Markvörðurinn hjá Val var frábær allan leikinn og það bjargaði Völsurum.“

Síðasta leik Stjörnunnar lauk með 5:4-heimasigri á HK og hefur liðið því boðið upp á tvo æsispennandi markaleiki í röð. „Það er eins gott að maður sé ekki hjartveikur. Við bjóðum upp á þetta með því að spila skemmtilegan fótbolta. Við förum ekki að breyta því núna,“ sagði Ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert