Ekki hægt að byrja betur

Það var hart barist í leiknum í kvöld.
Það var hart barist í leiknum í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

„Mér fannst þetta vera gríðarlega sterkur leikur, og tvö sterk lið að mætast,“ segir Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, sem var mjög ánægður með að hafa borið sigur úr býtum í heimaleik þeirra í 4. umferð Bestu deildar karla á móti KA fyrr í kvöld, en Víkingur vann leikinn 1:0 með marki sem kom í blálok leiksins.

Arnar segir að Víkingar hafi varla verið með í leiknum fyrstu 25 mínúturnar. „Og það var ekki af því að við værum að spila illa, heldur voru KA-menn sterkir og góðir, en eftir það fannst mér við taka yfir þetta, og í seinni hálfleik var þetta mjög öflug frammistaða hjá okkur,“ segir Arnar.

Sóknir Víkinga þyngdust eftir því sem leið á leikinn, og segir Arnar það alltaf vera erfiða stöðu fyrir lið að halda hreinu þegar svo er. „Þegar þú færð á þig sókn eftir sókn eftir sókn, þá endar það bara á einn veg, þó við höfum þurft að bíða lengi,“ segir Arnar.

-Víkingar eru nú með fullt hús stiga eftir fjórar umferðir. Á bara að „klára“ deildina áður en henni verður skipt upp?

Arnar hlær við. „Það mun ekki gerast. Þetta var „grind“ í dag, og við þurftum að leita djúpt, en þetta er auðvitað fullkomin byrjun og ekki hægt að gera betur,“ segir Arnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert