ÍBV vann sterkan 3:1-útisigur á Keflavík í Bestu deild karla í fótbolta í kvöld. Maður leikins var Felix Örn Friðriksson sem var hættulegur á vinstri vængnum og átti stóran þátt í sigrinum með tvær stoðsendingar og átti einnig sinn þátt í jöfnunarmarki ÍBV. Aðspurður um tilfinninguna eftir leik.
„Sæt, við komum til Keflavíkur til að ná í þessi þrjú stig og við gerðum það með þolinmæði og vinnusemi. Flottur leikur í alla staði.“
Leikurinn var tíðindalítill í fyrri hálfleik og sama var uppá teningnum í byrjun seinni hálfleiks en síðan nær Keflavík forystunni og það virtist heldur betur kveikja í Eyjamönnum.
„Við byrjuðum seinni hálfleikinn ekkert frábærlega en svo komum okkur inn í þetta og vorum að mér finnst sterkari aðilinn eftir að þeir skora en Keflavík er með hörkulið og eiga eftir að vera flottir og ég hef ekkert út á þá að setja. Við vorum on it eftir að þeir skoruðu og gerðum það sem þurfti að gera,“ sagði hann.