Valur vann í kvöld 3:2-sigur á Stjörnunni á heimavelli í lokaleik 4. umferðar Bestu deildar karla í fótbolta. Valsmenn eru nú í öðru sæti með níu stig. Stjarnan er aðeins með þrjú stig.
Valsmenn byrjuðu mjög vel, því Andri Rúnar Bjarnason var búinn að skora fyrsta markið eftir aðeins sex mínútur. Andri skallaði þá í netið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Aroni Jóhannssyni.
Hilmar Árni Halldórsson var nálægt því að jafna í næstu sókn Stjörnunnar, en Frederik Schram í marki Vals varði virkilega vel.
Liðunum gekk illa að skapa sér góð færi næstu mínútur, en Valsmenn bættu við öðru marki á 36. mínútu. Það gerði Adam Ægir Pálsson er hann skoraði með glæsilegu skoti upp í skeytin í miðjum vítateig Stjörnunnar.
Hvorugu liðinu tókst að skapa sér gott færi eftir það og var staðan í hálfleik því 2:0.
Fyrri hálfleikur byrjaði frekar rólega og gekk liðunum illa að skapa sér færi. Það kom því nokkurn veginn upp úr engu að Stjarnan minnkaði muninn á 80. mínútu. Ísak Andri Sigurgeirsson nýtti sér þá mistök Sigurðar Egils Lárussonar í vörn Vals og skoraði með góðu skoti upp í hornið.
Hvorki Ísak né Stjarnan voru hætt, því Ísak jafnaði metin á 88. mínútu með stórglæsilegri afgreiðslu í teignum. Lyfti Stjörnumaðurinn boltanum með mögnuðum hætti yfir Frederik Schram og í hornið fjær.
Það voru hins vegar Valsmenn sem skoruðu sigurmarkið, því Birkir Heimisson skoraði með skoti af stuttu færi seint í uppbótartímanum og þar við sat.