ÍBV vann sterkan 3:1-útisigur á Keflavík í 4. umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
Sami Kamel kom Keflavík yfir á 66. mínútu en þeir Hermann Þór Ragnarsson, Sverrir Páll Hjaltested og Oliver Heiðarsson svöruðu fyrir ÍBV.
Fyrri hálfleikur var tíðindalítill en heimamenn áttu hættulegri færi en gestirnir frá Eyjum voru þó meira með boltann.
Seinni hálfleikur byrjaði svipað tíðindalítill en svo opnuðust flóðgáttir á 66. mínútu þegar að Sami Kamel kom heimamönnum í Keflavík yfir eftir sendingu frá Jordan Smylie. Flott sókn hjá Keflavík, 1:0.
Við þetta mark fóru gestirnir heldur betur í gang. Á 70. mínútu átti Felix Örn Friðriksson sendingu frá vinstri inní teig sem Sverrir Páll Hjaltested tók við og sendi á Hermann Þór Ragnarsson sem jafnaði leikinn, 1:1.
Fjórum mínútum síðar átti Felix Örn stoðsendingu sem fór á Sverri Pál sem skoraði og kom ÍBV yfir, 2:1.
Það var svo nýliði ÍBV, Oliver Heiðarsson, sem skoraði í sínum fyrsta leik fyrir félagið þegar hann skoraði þriðja mark gestanna á 78. mínútu og aftur stoðsending frá Felix Erni, 3:1.
Þannig urðu lokatölur í leiknum og gestirnir frá Vestmannaeyjum fara sáttir heim með 3 stig í pokanum og fylgja eftir öflugum sigri frá því í síðustu umferð.
Keflavík er hins vegar búin að tapa báðum heimaleikjum sínum í deildinni á tímabilinu og er sem stendur í 9. sæti með 4 stig eftir fjóra leiki. ÍBV er í 6. sæti með 6 stig.