„Tilfinningin er geggjuð,“ sagði Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, í samtali við mbl.is eftir 3:0-sigur liðsins gegn KR í Bestu deild karla í knattspyrnu á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika í dag.
„Við erum ósigraðir á þessum frábæra heimavelli okkur og að halda hreinu líka var mjög jákvætt. Við fengum frábæra byrjun sem sett tóninn að einhverju leyti. Við erum búnir að spila á þessum velli áður og svona eiga heimaleikir að vera.
Þú átt að vera kunnugur ástæðum á heimavellinum þínum og mér fannst við spila fínan fótbolta í dag, ef tekið er mið af vallaraðstæðunum sem voru ekkert frábærar kannski. Mér fannst við vinna þennan leik sannfærandi,“ sagði Kjartan Henry.
Kjartan Henry er uppalinn KR-ingur en hann skipti yfir í FH síðasta haust.
„Auðvitað var það skrítið að skora gegn KR en við spiluðum æfingaleik hérna við þá í vetur þar sem ég skoraði líka eftir tvær mínútur. Ég var því búinn að rífa plásturinn af, ef þess þá þurfti, en núna er ég í FH. Mitt hlutverk er að skora fyrir FH og ég skoraði tvö í dag.“
Framherjinn skoraði stórglæsilegt bakfallsspyrnumark strax á 2. mínútu en hann fagnaði markinu fyrir framan stuðningsmenn KR.
„Stuðningsmenn KR eru allir yndislegir og ég þekki alla þessa stráka. Ég var eiginlega bara í sjokki og vissi ekkert hvað ég átti eða ætlaði að gera. Ég var meira að njóta augnabliksins enda ekki á hverjum degi sem menn á mínum aldri, með mína stærð, skora svona mörk,“ bætti Kjartan Henry við í samtali við mbl.is en hann verður 37 ára gamall í júlí.