Kjartan Henry Finnbogason fór mikinn fyrir FH gegn sínum gömlu félögum í KR þegar liðin mættust í Bestu deild karla í knattspyrnu á frjálsíþróttavellinum í Kaplakrika í Hafnarfirði í 4. umferð deildarinnar í dag.
Leiknum lauk með öruggum sigri Hafnfirðinga, 3:0, en Kjartan Henry skoraði tvívegis í leiknum.
Leikurinn fór afar fjörlega af stað og það var fyrrverandi KR-ingurinn Kjartan Henry Finnbogason sem kom FH yfir með frábæru marki strax á 2. mínútu.
Hafnfirðingar sendu boltann langt fram völlinn og Vuk Oskar Dimitrijevic skallaði boltinn niður fyrir Kjartan Henry.
Framherjinn átti frábæra bakfallsspyrnu úr miðjum D-boganum sem fór yfir Simen Kjellevold í marki KR og staðan orðin 1:0.
Kjartan Henry fékk sannkallað dauðafæri til þess að tvöfalda forystu Hafnfirðinga á 18. mínútu en frír skalli hans á fjærstönginni, eftir hornspyrnu frá hægri, fór beint á Simen.
Ægir Jarl Jónasson slapp einn í gegnum vörn FH á 21. mínútu eftir fallega stungusendingu Jóhannesar Kristins Bjarnasonar en Sindri Kristinn Ólafsson í marki FH kom út á móti honum og lokaði á hann.
KR-ingar voru sterkari undir lok fyrri hálfleiks og áttu nokkrar hættulegar skottilraunir en Sindri Kristinn var vandanum vaxinn í markinu og staðan því 1:0 í hálfleik.
Björn Daníel Sverrisson tvöfaldaði forystu Hafnfirðinga á 53. mínútu með skoti úr aukaspyrnu af 25 metra færi.
Björn Daníel átti fast skot, beint í markmannshornið, en Simen hefði átt að gera miklu betur í marki KR-inga.
Kjartan Henry var svo aftur á ferðinni á 60. mínútu en hann fylgdi þá eftir föstum skalla Björns Daníels.
Björn Daníel átti fastan skalla eftir hornspyrnu, sem Simen varði til hliðar, og Kjartan Henry var fyrstur að átta sig og kom boltanum í netið af stuttu færi úr markteignum og staðan orðin 3:0.
Eftir þriðja mark Hafnfirðinga fjaraði leikurinn svo gott sem út og FH-ingar fögnuðu öruggum sigri í leikslok.
FH fer með sigrinum upp í 2. sæti deildarinnar í 7 stig en KR er í því 8. með 4 stig.