Örvar tryggði HK sigur í nýliðaslagnum

Örvar Eggertsson í harðri baráttu í Kórnum í dag.
Örvar Eggertsson í harðri baráttu í Kórnum í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

HK vann í dag sinn annan sigur í fyrstu fjórum umferðunum í Bestu deild karla í fótbolta þegar þeir lögðu Fylki að velli í nýliðaslag Kórnum í Kópavogi, 1:0.

Örvar Eggertsson skoraði sigurmarkið á 84 mínútu, hans fjórða mark í jafnmörgum leikjum. HK er þá komið með sjö stig og er í öðru sæti eins og er en Fylkir er með þrjú stig eftir þriðja tapið í fyrstu fjórum umferðunum.

Fylkismenn voru heldur sterkari aðilinn fyrsta hálftímann í Kórnum. Ólafur Karl Finsen fékk besta færi þeirra á 21. mínútu, virtist geta skallað boltann í tómt markið þegar Arnar Freyr Ólafsson markvörður missti hann frá sér eftir fyrirgjöf, en Birkir Valur Jónsson varnarmaður HK bjargaði með snarræði.

HK tók leikinn svo nokkuð yfir síðustu fimmtán mínútur fyrri hálfleiks og átti margar hættulegar sóknir, sérstaklega upp hægra megin þar sem Birkir Valur var í aðalhlutverki.

Ívar Örn Jónsson átti gott skot úr aukaspyrnu, rétt við markvinkilinn, og Arnþór Ari Atlason átti hættulegt skot frá vítateig þar sem boltinn straukst við þverslána.

Þórður Gunnar Hafþórsson átti svo fast skot að marki HK í uppbótartíma fyrri hálfleiks en Arnar varði af öryggi með því að slá boltann yfir markið. Staðan var 0:0 í hálfleik.

Örvar Eggertsson komst í ágætt færi í vítateig Fylkis á 51. mínútu eftir góða sókn HK upp hægra megin en skaut beint á Ólaf Kristin Helgason í marki Fylkis.

Þórður fékk fyrsta hættulega færi Fylkis í síðari hálfleik þremur mínútum síðar þegar hann komst inn í vítateig HK hægra megin og reyndi að skjóta í hornið fjær en Arnar var vel staðsettur og varði.

Þórður Gunnar var aftur hættulegur á 71. mínútu þegar hann átti góðan sprett og skaut frá vítateig en Arnar Freyr varði örugglega.

Á 84. mínútu dró loks til tíðinda. Atli Þór Jónasson, nýkominn inn á sem varamaður hjá HK, slapp inn í vítateiginn vinstra megin af miklu harðfylgi eftir að hafa náð boltanum við hliðarlínuna og skaut að marki, Ólafur varði en Örvar Eggertsson fylgdi á eftir í markteignum og kom boltanum yfir marklínuna, 1:0.

Fylkismenn voru óhressir með markið og töldu að Atli hefði handleikið boltann þegar hann vann hann við hliðarlínuna.

Örvar var nálægt því að skora aftur í uppbótartímanum þegar Ólafur verði vel hörkuskot hans frá vítateigslínu.

Fylkismenn sóttu talsvert í lokin en náðu ekki að skapa sér færi til að jafna metin.

HK 1:0 Fylkir opna loka
91. mín. Leik lokið HK sigrar eftir gríðarlega baráttu og er komið með sjö stig í deildinni.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka