„Þetta eru sætustu sigrarnir, að vinna 1:0 og skora sigurmarkið svona seint,“ sagði Örvar Eggertsson, kantmaður HK, við mbl.is eftir að hafa skorað markið sem réði úrslitum í nýliðaslagnum gegn Fylki í Bestu deild karla í fótbolta í Kórnum í dag.
Örvar hefur nú skorað í öllum fjórum leikjum HK í deildinni en liðið er sem stendur í öðru sæti með sjö stig, alla vega fyrir síðustu leiki dagsins.
Markið mikilvæga kom á 84. mínútu en Örvar fylgdi þá eftir skoti Atla Þórs Jónassonar og skoraði af örstuttu færi.
„Atli náði boltanum úti á kanti og skaut svo á markið. Ég var tilbúinn úti í vítateignum, beint fyrir framan markið, sá boltann lausan fyrir framan mig og sendi hann bara í tómt net. Þetta hljómar mjög einfalt,“ sagði Örvar við mbl.is eftir leikinn en mörkin þrjú sem hann skoraði í fyrstu leikjunum voru öðruvísi.
„Já, þau voru ekki svona létt en það er sama hvernig þau koma, maður þarf að vinna fyrir sínum mörkum og þetta kom á réttu augnabliki.
Mér leið allan tímann eins og við værum að fara að skora, hafði það á tilfinningunni að markið kæmi, og svo gerðist það. Maður verður að halda í trúna,“
Þú ert búinn að skora í öllum fjórum leikjum HK til þessa, hvað er á bak við það?
„Ég æfði mjög mikið aukalega í vetur, skaut mikið, æfði snertingar og skot í teignum á hádegisæfingum hjá Ómari (Inga Guðmundssyni þjálfara HK) og það er að skila sér núna.“
Hver eru markmiðin hjá ykkur, hugsið þið bara um að halda sætinu eða horfið þið lengra?
„Það verður bara að koma í ljós. Við stefnum hátt, markmiðið er að ná eins langt og hægt er. Ég er mjög jákvæður á tímabilið, ég byrja vel og liðið byrjar vel. Við þurfum að halda liðsheildinni og þá endar þetta vel,“ sagði Örvar Eggertsson.