Höfum unnið vel fyrir þessum stigum

Ómar Ingi Guðmundsson þjálfar í fyrsta skipti lið í efstu …
Ómar Ingi Guðmundsson þjálfar í fyrsta skipti lið í efstu deild og fer vel af stað með HK. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Ómar Ingi Guðmundsson þjálfari nýliða HK í Bestu deild karla í fótbolta, er mjög ánægður með byrjun liðsins á Íslandsmótinu, sem er sú besta í sögu félagsins í efstu deild, eftir að Kópavogsliðið vann Fylki, 1:0, í Kórnum í gær og er í fjórða sæti með sjö stig eftir fjórar umferðir.

„Já, ég er klárlega ánægður með hvernig við höfum farið af stað. Þetta er flott byrjun. Okkur fannst við reyndar getað fengið meira út leikjunum þar sem við gerðum jafntefli við Fram og töpuðum fyrir Stjörnunni en vissulega ætlum við ekki að vera vanþakklátir. Við erum glaðir með þessi sjö stig og við unnum vel fyrir þeim," sagði Ómar Ingi við mbl.is eftir leikinn.

Svo gat þessi leikur gegn Fylki endað á hvorn veginn sem var.

„Já, algjörlega. Við spiluðum tvo leiki við þá í fyrra, sem voru mjög svipaðir þessum og enduðu með einum sigri og einu tapi. Við vissum alltaf að þetta yrði erfitt og það þyrfti margt að smella til að vinna þá, og mér fannst það gera það í dag. 

Sérstaklega varnarleikurinn, og bara hvernig við héldum boltanum á löngum köflum, það var mjög jákvætt.“

Þið fenguð fimm mörk á ykkur í síðasta leik, skoruðuð reyndar fjögur, en lagðirðu vegna þess enn meiri áherslu á að þétta varnarleikinn fyrir þennan leik gegn Fylki?

„Já, við ræddum það að þétta varnarleikinn. En þegar maður horfir aftur á Stjörnuleikinn þá var ástæðan fyrir mörkunum sem við fengum á okkur þar sú að við gáfum boltann alltof auðveldlega frá okkur. Við héldum ekki nógu vel í hann, sérstaklega á þessum 15 mínútum í síðari hálfleik þegar Stjarnan komst aftur inn í leikinn.

Þegar þú ert sífellt að verjast verður þetta alltof erfitt. Það var fyrst og fremst það sem við æfðum fyrir þennan leik gegn Fylki, að við vildum halda betur í boltann og fórum yfir það á æfingasvæðinu, en við töluðum vissulega um að við þyrftum að vera þéttari og ákefðin þyrfti að vera meiri í varnarleiknum.“

Ómar er nýorðinn 37 ára, annar tveggja yngstu þjálfara deildarinnar og með minnsta reynslu af þjálfun í meistaraflokki eftir að hafa tekið við liði HK í maí á síðasta ári. Hann sagði að tíminn í starfi þjálfara HK hefði verið afar skemmtilegur.

Birkir Valur Jónsson, hægri bakvörður HK, skallar boltann í leiknum …
Birkir Valur Jónsson, hægri bakvörður HK, skallar boltann í leiknum gegn Fylki í gær. mbl.is/Óttar Geirsson

„Já, þetta er búið að vera mjög gaman. Ég hef fengið mikla hjálp frá mínu aðstoðarfólki, á mikil samtöl við fólkið í kringum mig og þekki marga góða þjálfara sem ég get leitað til. Auk þess eru reynslumiklir leikmenn í hópnum. Þetta er búið að vera skemmtilegt og ég er mjög sáttur.“

Hópurinn eins og hann er núna, ertu sáttur með hann eða hefði þurft að styrkja hann meira áður en félagaskiptaglugganum var lokað í vikunni?

„Við vorum að leita að sóknarmanni og við fengum hann (Eyþór Aron Wöhler frá Breiðabliki). Við vorum ekki að leita að neinu öðru og fengum sóknarmanninn sem við vorum að leita að allan tímann. Ég er mjög sáttur við hópinn eins og hann er. Eyþór kom beint inn í leikinn, það er alltaf erfitt að koma beint inn í byrjunarlið hjá nýju félagi, eftir tvær æfingar, en mér fannst hann klárlega gera vel, og við sjáum strax að hann getur nýst okkur heilmikið.“ 

Og Örvar Eggertsson er að springa út, hefur skorað í öllum leikjunum. Er það eitthvað sem þú sást fyrir?

Örvar Eggertsson hefur skorað fjögur mörk fyrir HK og skallar …
Örvar Eggertsson hefur skorað fjögur mörk fyrir HK og skallar hér boltann í leiknum við Fylki. mbl.is/Óttar Geirsson

„Þetta er eitthvað sem við vonuðumst eftir. Við áttum samtöl við Örvar strax í haust um það að með réttu hugarfari og ef hann myndi æfa vel þá myndi þetta klárlega geta gerst. Við sáum hvernig hann spilaði í fyrra, og hann var á sömu blaðsíðu og við. Byrjaði strax að æfa mjög vel í haust, þeir sem gátu mættu tvisvar í viku aukalega í hádeginu, og æfðu að skjóta í kringum teiginn, og hann missti ekki af einni einustu slíkri æfingu.

Vinnan sem hann er  búinn að leggja í þetta er að skila sér og við erum mjög ánægðir með hvernig tímabilið fer af stað hjá honum," sagði Ómar Ingi Guðmundsson.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert