Bæði mörkin búin til af okkur

Jóhann Kristinn Gunnarsson á hliðarlínunni í dag.
Jóhann Kristinn Gunnarsson á hliðarlínunni í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Jóhann Kristinn Gunnarsson, þjálfari Þórs/KA í Bestu-deild kvenna í fótbolta, var hálf sleginn eftir að lið hans hafði tapað 1:2 fyrir Keflavík í 2. umferð deildarinnar í dag.

Leikið var á Greifavellinum á Akureyri fyrir framan fjölmarga áhorfendur en Þór/KA hefur spilað vel í allt vor þannig að skellurinn var skiljanlega mikill.

„Þetta var mikið högg fyrir okkur, bara alvöru krókur“ sagði Jóhann. „Við vorum í bullandi vandræðum allan leikinn, bara frá upphafi til enda. Það sem fer mest í taugarnar á mér er að við eða ég næ ekki að vinda ofan af vondri byrjun. Ég hélt að þetta myndi hafast þegar við jöfnuðum leikinn strax í seinni hálfleik en  það gerðist ekki og Keflavík skoraði aftur og þetta var alvöru rothögg.“

Ja, miðað við góða spilamennsku liðsins í vor og svo sigurinn gegn Stjörnunni í Garðabæ í 1. umferðinni þá var þessi leikur úr karakter og þið eiginlega gefið þeim bæði mörkin.

Sandra María Jessen skoraði mark heimakvenna í dag.
Sandra María Jessen skoraði mark heimakvenna í dag. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

„Mér fannst Keflvíkingar gera sitt vel og ná ágætis uppspili í kringum sterkan framherja og allt það en bæði mörkin og svo annað færi sem þær nýttu ekki eru bara búin til af okkur. Liðið hefur ekki spilað svona áður. Þetta fór eiginlega allt bara í þennan eina leik, því miður. Allt sem gat farið úrskeiðis fór úrskeiðis í þessum eina leik.

Það eina sem ég get núna vonað er að við séum bara búin með allt slíkt því þetta var svo mikið. Það leiðinlega við þetta allt saman er að hafa verið að gera þetta fyrir framan allan þennan fjölda af fólki sem komu að styðja stelpurnar. Nú finnst okkur við hafa brugðist.“ sagði Jóhann, klárlega afar ósáttur.

Þú ert með afar ungt lið en svo eru þarna nokkrir reyndari leikmenn. Nú misstir þú tvo leikmenn í dag, báða með þeim reyndari í liðinu. Annar datt út í upphitun og hinn í hálfleik. Má liðið við svona skakkaföllum?

„Ég er mjög ánægður með ungu leikmennina og þeir eru að standa sig vel. Margar hverjar eru kannski komnar í allt of stór hlutverk miðað við allt og allt. Ég get ekki verið ósáttur við þær“ sagði hinn reyndi Jóhann Kristinn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert