Sterkur sigur hjá Keflavík

Keflavíkurkonur fagna fyrsta marki leiksins.
Keflavíkurkonur fagna fyrsta marki leiksins. Ljósmynd/Kristín Hallgrímsdóttir

Önnur umferð í Bestu-deild kvenna í fótbolta hófst í dag með einum leik. Á Greifavellinum á Akureyri mættust Þór/KA og Keflavík í sólskini en kulda. Þór/KA hafði unnið Stjörnuna í fyrstu umferðinni 1:0 en Keflavík gerði markalaust jafntefli við Tindastól á Sauðárkróki.

Keflavík vann góðan 2:1-sigur og er liðið nú með fjögur stig á toppi Bestu-deildarinnar en Þór/KA er með þrjú stig.

Fyrri hálfleikurinn í dag var heldur rólegur til að byrja með en smám saman fóru heimakonur í Þór/KA að þjarma að Keflavíkurvörninni. Nokkur færi litu dagsins ljós og mark var dæmt af Þór/KA um miðjan hálfleikinn.

Keflvíkingar skorðuðu hins vegar fyrsta mark leiksins eftir að hafa unnið boltann nærri vítateig heimakvenna. Linli Tu opnaði markareikning sinn í Bestu-deildinni með góðu potmarki en hún var á undan Melissu Lowder í boltann eftir fasta fyrirgjöf frá Söndru Voitane af hægri kantinum.

Boltinn hrökk svo í stöngina á marki Þórs/KA skömmu síðar eftir snarpa sókn Keflvíkinga upp vinstri vænginn. Staðan var 1:0 fyrir Keflavík í hálfleik eftir tiltölulega rólegan hálfleik.

Fjörið byrjaði svo í seinni hálfleiknum og Þór/KA jafnaði leikinn strax. Þar var Sandra María Jessen að verki eftir snilldar sendingu frá Amalíu Árnadóttur. Heimakonur voru æstar í annað mark og voru mikið í sókn næstu mínútur.

Keflavík nýtti sér það og skoraði gott mark á 56. mínútu. Þær sendu langan bolta fram, sem virtist hættulaus. Hreinsun Þórs/KA mistókst og allt í einu voru Keflvíkingar þrír á tvo varnarmenn Þórs/KA. Sandra Voitane rak endahnútinn á sóknina með góðu marki.

Nokkur færi litu svo dagsins ljós en mörkin urðu ekki fleiri. Vera Varis átti snilldar vörslur í tvígang og svo átti Dröfn Einarsdóttir neglu í þverslána á marki Þórs/KA. Keflvíkingar lentu ekki í teljandi vandræðum á lokakaflanum en Tahnai Annis átti þó skalla á lokasekúndunum en hann fór framhjá markinu.

Þór/KA 1:2 Keflavík opna loka
90. mín. +1 Enelía Ósk er dæmd rangstæð. Hún var komin í fyrirtaks færi.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert