Ég er fullkomlega sáttur með að vinna leikinn

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar.
Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist í samtali við mbl.is vera ánægður með stigin þrjú eftir sigur Stjörnunnar á ÍBV í 2. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Leikið var í Garðabænum og fór Stjarnan með sigur af hólmi, 1:0.

„Ég er fullkomlega sáttur með að vinna leikinn. Við stjórnuðum leiknum allan tímann en gerðum þetta kannski óþarflega spennandi undir lokin með því að nýta ekki þennan góða kafla sem við áttum í upphafi seinni hálfleiks. Þar áttum við að bæta við öðru marki en heilt yfir var þetta bara fínt.“

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði sigurmark Stjörnunnar í kvöld. Gunnhildur er að spila sína fyrstu leiki fyrir Stjörnuna í langan tíma eftir að hafa komið heim úr atvinnumennsku. Aðspurður segir Kristján hana vera gríðarlega mikilvæga fyrir liðið.

„Hún kemur með ákveðna reynslu inn í liðið og þá sérstaklega í svona leikjum þar sem við erum 1:0 yfir og náum ekki inn öðru markinu. Þá er alveg hægt að missa móðinn og hægt að tapa skipulagi en hún kemur þá sterk inn með mikinn talanda á miðjuna og hjálpar öllum í kringum sig.“

Aníta Ýr Þorvaldsdóttir var frábær á hægri kanti Stjörnunnar í fyrri hálfleik en hún var tekin af velli í hálfleik. Kristján segir að Aníta sé að vinna sig inn í liðið eftir löng meiðsli og það þurfi að fara varlega með hana.

„Aníta er búin að missa af öllum vetrinum og er búin að vera að æfa ein. Við erum að vinna hana til baka, hún spilaði 25 mínútur í fyrsta leik og 45 í dag þannig við erum að ná henni hægt og bítandi inn í þetta aftur. Við þurfum að gera þetta allt í sameiningu því við viljum alls ekki missa hana aftur í meiðsli.“

Stjörnukonur eru komnar með þrjú stig á töfluna og ætla sér meira.

„Það eru hörkuleikir framundan gegn Þrótti og Val. Það var gott að fá þennan sigur í dag og halda hreinu og það er í rauninni það sem við þurfum að halda áfram að gera á meðan við slípum sóknarleikinn til, þá hjálpar mikið að halda hreinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert