Í dag kemur í ljós hverjir mótherjar Íslands verða í Þjóðadeild kvenna í fótbolta síðar á þessu ári en dregið verður í riðla í höfuðstöðvum UEFA í Sviss klukkan 11 að íslenskum tíma.
Ísland leikur í A-deild í þessari fyrstu Þjóðadeild í kvennaflokki en þetta er fyrsti þátturinn í nýju keppnisfyrirkomulagi hjá konunum þar sem árangur í keppninni hefur bein áhrif á næstu undankeppni EM, sem verður með sama fyrirkomulagi, auk þess sem mögulegt er að vinna sér sæti á Ólympíuleikunum í París 2024.
Sextán lið leika í A-deildinni og þeim verður skipt í fjóra riðla. Ísland er í þriðja styrkleikaflokki fyrir dráttinn og fær einn mótherja úr hverjum hinna þriggja flokkanna. Þeir eru þannig skipaðir:
1: England, Þýskaland, Frakkland, Svíþjóð.
2: Spánn, Holland, Noregur, Danmörk.
3: Ítalía, Belgía, Austurríki, Ísland.
4: Sviss, Wales, Portúgal, Skotland.
Vegna landfræðilegrar legu og vallarskilyrða að vetrarlagi geta Svíþjóð, Noregur og Ísland ekki öll leikið í sama riðli.
Sigurlið riðlanna komast í undanúrslit um sigur í mótinu og um tvö sæti á Ólympíuleikunum. Liðin í öðru sæti leika áfram í A-deild í undankeppni EM 2025. Liðin í þriðja sæti fara í umspil um sæti í A-deild við liðin sem enda í öðru sæti riðla B-deildar en liðin í fjórða sæti falla niður í B-deildina.