Ísland verður í riðli með Þýskalandi, Danmörku og Wales í A-deild Þjóðadeildar kvenna sem hefst í fyrsta skipti í haust.
Keppnin hefst 20.-26. september þegar fyrstu tvær umferðirnar verða leiknar. Umferðir þrjú og fjögur fara fram 25. til 31. október og tvær síðustu umferðirnar dagana 29. nóvember til 5. desember.
Ljóst er að íslenska landsliðið mun spila heimaleikina þrjá á fyrstu fjórum leikdögunum í september og október og enda á tveimur útileikjum.
Úrslitakeppni og umspilsleikir fara síðan fram dagana 21.-28. febrúar 2024 og ljóst er að Ísland á ekki kost á að leika á heimavelli á þeim tíma.
Dregið var í riðlana í Sviss núna fyrir hádegið, í öllum þremur deildunum, og niðurstaðan varð þessi:
A-DEILD:
Riðill 1: England, Holland, Belgía, Skotland.
Riðill 2: Frakkland, Noregur, Austurríki, Portúgal.
Riðill 3: Þýskaland, Danmörk, Ísland, Wales.
Riðill 4: Svíþjóð, Spánn, Ítalía, Sviss.
B-DEILD:
Riðill 1: Írland, Norður-Írland, Ungverjaland, Albanía.
Riðill 2: Finnland, Rúmenía, Slóvakía, Króatía.
Riðill 3: Pólland, Serbía, Úkraína, Grikkland.
Riðill 4: Tékkland, Slóvenía, Bosnía, Hvíta-Rússland.
C-DEILD:
Riðill 1: Malta, Moldóva, Lettland, Andorra.
Riðill 2: Tyrkland, Lúxemborg, Litháen, Georgía.
Riðill 3: Aserbaídsjan, Svartfjallaland, Kýpur, Færeyjar.
Riðill 4: Ísrael, Eistland, Kasakstan, Armenía.
Riðill 5: Norður-Makedónía, Kósovó, Búlgaría.
Sigurlið riðlanna fjögurra í A-deildinni komast í undanúrslit um sigur í mótinu og leika jafnframt um tvö sæti á Ólympíuleikunum í París 2024. Liðin í öðru sæti leika áfram í A-deild í undankeppni EM 2025. Liðin í þriðja sæti fara í umspil um sæti í A-deild við liðin sem enda í öðru sæti riðla B-deildar en liðin í fjórða sæti falla beint niður í B-deildina.