Íslensku stúlkurnar lögðu Portúgal örugglega

Íslenska liðið stillir sér upp fyrir leikinn í dag.
Íslenska liðið stillir sér upp fyrir leikinn í dag. Ljósmynd/KSÍ

Íslenska U15-ára landsliðið í knattspyrnu kvenna vann geysilega sterkan sigur á Portúgal, 3:0, þegar liðin áttust við í vináttulandsleik á æfingasvæði Portúgals steinsnar frá Lissabon í dag.

Markalaust var í leikhléi en strax í upphafi síðari hálfleiks kom Edith Kristín Kristjánsdóttir Íslandi í forystu með þrumuskalla af stuttu færi sem fór í þverslána og inn eftir fyrirgjöf Camilly Kristal Silva Da Rocha frá hægri.

Um miðjan hálfleikinn tvöfaldaði Lilja Þórdís Guðjónsdóttir forystu íslenska liðsins þegar hún fylgdi á eftir bylmingsskoti Ágústu Maríu Valtýsdóttur beint úr aukaspyrnu og skoraði af stuttu færi.

Skömmu síðar, á 71. mínútu, var Lilja Þórdís aftur á ferðinni þegar hún var mætt á fjærstöngina og lagði boltann í netið eftir þversendingu Camilly Kristal úr vítateignum.

Glæsilegur 3:0-sigur reyndist því niðurstaðan.

Liðin mætast í öðrum vináttulandsleik á sama stað á fimmtudag.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert