Öruggt hjá Blikum á Króknum

Tayor Ziemer í baráttu við Hönnuh Cade í kvöld.
Tayor Ziemer í baráttu við Hönnuh Cade í kvöld. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Breiðablik gerði góða ferð norður á Sauðárkrók og lagði þar nýliða Tindastóls að velli, 3:0, í annarri umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld.

Blikar hófu leikinn af miklum krafti þar sem Taylor Ziemer ógnaði í tvígang með hættulegum skotum. Í þriðju tilraun tókst henni loks að skora á áttundu mínútu.

Ziemer fékk þá boltann frá Vigdísi Lilju Kristjánsdóttur, fór auðveldlega framhjá Bryndísi Rut Haraldsdóttur, fyrirliða Tindastóls, og náði þéttingsföstu skoti úr D-boganum niður í fjærhornið sem Monica Wilhelm í marki Stólanna varði í netið.

Í kjölfarið fengu bæði lið góð færi.

Þar á meðal fékk Birta Georgsdóttir sannkallað dauðafæri eftir tæplega hálftíma leik þegar hún náði skoti af markteig eftir fyrirgjöf Ástu Eirar Árnadóttur frá hægri en Wilhelm varði vel með fótunum. Birta hefði þó sannarlega átt að gera betur.

Skömmu fyrir leikhlé tvöfaldaði Ziemer forskot Blika. Hún fékk þá boltann frá Ástu Eir úr innkasti, lagði hann fyrir sig töluvert fyrir utan vítateig og hamraði boltann rakleitt upp í samskeytin fjær, stórglæsilegt mark.

Staðan var því 2:0 í leikhléi, Breiðabliki í vil.

Síðari hálfleikur reyndist ekki jafn líflegur og sá fyrri þó bæði lið hafi haldið áfram að skapa sér góð færi.

Murielle Tiernan, sem ógnaði marki Blika nokkrum sinnum í fyrri hálfleik, fékk dauðafæri eftir rúmlega klukkutíma leik.

Hugrún Pálsdóttir sendi hana þá eina í gegn en Telma Ívarsdóttir í marki Blika gerði vel í að verja skot Tiernan rvið markteiginn.

Skömmu síðar, á 68. mínútu, átti Tiernan stórhættulega fyrirgjöf af vinstri kanti þar sem Melissa Garcia var mætt á nærstöngina en náði ekki nægilega góðu skoti úr sannkölluðu dauðafæri og boltinn sigldi framhjá markinu.

Tíu mínútum fyrir leikslok fékk Breiðablik í þrígang tækifæri í sömu sókninni til þess að skora þriðja markið.

Hafrún Rakel Halldórsdóttir, sem var nýkomin inn á sem varamaður, slapp þá ein í gegn, tók skotið en Wilhelm varði stórkostlega með hægri fæti.

Boltinn barst til Öglu Maríu Albertsdóttur í vítateignum, hún tekur skotið en það fór í varnarmann. Boltinn fór þaðan aftur til Hafrúnar Rakelar, sem náði öðru skoti af stuttu færi en Gwendolyne Mummert gerði vel í að komast fyrir það.

Fimm mínútum síðar kom hins vegar þriðja mark gestanna.

Hafrún Rakel kom þá boltanum fyrir, María Dögg Jóhannesdóttir náði ekki að hreinsa frá og týndi boltanum. Annar varamaður, Andrea Rut Bjarnadóttir, beið átekta og renndi boltanum undir Wilhelm af örstuttu færi.

Fleiri urðu mörkin ekki og fyrsti sigur Breiðabliks á tímabilinu staðreynd.

Tindastóll 0:3 Breiðablik opna loka
90. mín. Breiðablik fær hornspyrnu +1
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka