Stjarnan tók á móti ÍBV í 2. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld. Leikið var í Garðabænum og urðu lokatölur 1:0, heimakonum í vil.
Þetta var fyrsti sigur Stjörnukvenna í sumar eftir tap í fyrstu umferð. Eyjakonur hafa einnig unnið einn leik eftir sigur í fyrstu umferð. Bæði lið eru því með þrjú stig eftir tvær umferðir.
Leikurinn fór rólega af stað en Stjörnukonur voru ákveðnari og sköpuðu sér hættulegri færi. Aníta Ýr Þorvaldsdóttir var besti leikmaður fyrri hálfleiks en hún ógnaði stöðugt á hægri kanti heimakvenna.
Sigurmark leiksins kom á 32. mínútu en þá skoraði Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir og kom Stjörnunni 1:0 yfir. Aníta Ýr hafði þá fært sig yfir á vinstri kantinn þar sem hún fékk boltann, hún sendi hann yfir til hægri á Gyðu Kristínu Gunnarsdóttur sem sendi boltann innfyrir vörnina á Gunnhildi Yrsu. Gunnhildur lét vaða að marki gestanna og endaði boltinn í netinu og heimakonur komnar yfir.
Eftir markið róaðist leikurinn aftur og ekkert marktækt gerðist áður en Þórður Þorsteinn Þórðarson, góður dómari leiksins, flautaði til hálfleiks.
Áfram héldu yfirburðir Stjörnukvenna í síðari hálfeik án þess þó að ná að skora mark. Næst því komst Snædís María Jörundsdóttir þegar hún komst ein í gegn á 56. mínútu leiksins. Snædís fékk þá flotta sendingu innfyrir frá Gyðu Kristínu en skot hennar var ekki nógu gott og varði Guðný Geirsdóttir, markvörður ÍBV, vel.
Leikurinn fjaraði síðan út og heimakonur fögnuðu sínum fyrsta sigri í sumar.