Þær eru mjög villtar í FH

Fanney Inga Birkisdóttir er í U-19 landsliðshópnum sem tryggði sér …
Fanney Inga Birkisdóttir er í U-19 landsliðshópnum sem tryggði sér sæti á EM 2023 fyrr á þessu ári. Kristinn Magnússon

„Tökum ekkert mark á spánni. Þetta kveikir bara í manni, gerir mann reiðari og gefur manni enn meiri vilja að taka titilinn,“ sagði Fanney Inga Birkisdóttir, markmaður Vals, eftir leik þeirra í dag. Valur vann FH 2:0 á Hlíðarenda og Fanney átti frábæran leik í marki Vals og hélt hreinu.

Valur er nú með sex stig eftir tvo fyrstu leiki í Bestu deildinni þetta tímabilið og hafa ekki fengið mark á sig.

„Þær eru mjög villtar í FH og út um allt svo þetta var mjög opinn leikur fannst mér en mér fannst við loka vel á þær, annaðhvort ég eða vörnin, þegar þær komust í gegn,“ sagði Fanney en hún og hennar liðsfélagar hafa haldið hreinu í fyrstu tveim leikjum deildarinnar.

Finnur þú mikla pressu að vera að koma í stað Söndru?

„Mér finnst þetta aðallega bara skemmtilegt, gaman að fá svona auka pressu, fyrst og fremst leiðinlegt að hafa misst Söndru af æfingum því hún er svo skemmtileg,“ sagði Fanney en hún er fædd árið 2005 og er því 19 árum yngri en fyrrum landsliðsmarkmaðurinn Sandra Sigurðardóttir sem stóð í marki Vals á undan Fanney.

Þó Fanney sé ung þá vantar ekki reynslubolta í kringum hana en í varnarlínu Vals í dag eru reynsluboltar eins og Arna Sif Ásgrímsdóttir, sem á 358 leiki og Elísa Viðarsdóttir sem á 259 leiki.

„Mér finnst geggjað að hafa þær fyrir framan mig og maður getur alltaf spurt þær hvort þær vilji að maður geri þetta eða hitt og hvað maður á að gera betur. Mér finnst við líka hafa mjög gott samband, þær geta stýrt mér og ég þeim. Þær eru líka ótrúlega góðar. Ég held að Arna Sif hafi bjargað svona þremur mörkum í dag!“

Valur vann bæði deildar- og bikarkeppnina á síðasta ári en er af flestum ekki spáð sigri í deildinni þetta tímabilið. 

„Við tökum ekkert mark á spánni. Þetta kveikir bara í manni, gerir mann reiðari og gefur manni enn meiri vilja að taka titilinn og sanna fyrir þessum sérfræðingum að þær hafa ekkert alltaf rétt fyrir sér. Auðvitað voru stór skörð höggvinn í hópinn en við erum með mjög breiðan og sterkan hóp og það kemur bara maður í manns stað,“ sagði Fanney, hress eftir leik dagsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert