Valskonur höfðu betur gegn nýliðunum

Shaina Ashouri og Þórdís Elva Ágústsdóttir eigast við á Hlíðarenda …
Shaina Ashouri og Þórdís Elva Ágústsdóttir eigast við á Hlíðarenda í dag. mbl.is/Kristinn Magnússon

Nýliðar FH mættu Val á Hlíðarenda í dag í Bestu deild kvenna í fótbolta. Leikurinn endaði með 2:0 sigri hjá Valsstúlkum.

Þær hafa þar með fengið sex stig eftir tvo leiki en FH er án stiga.

Fyrstu mínúturnar voru jafnar og FH kom inn í leikinn af öryggi en hægt og rólega tóku Valsstelpur yfirhöndina og eftir 25 mínútur kom fyrsta mark leiksins frá þeim.  Ásdís Karen Halldórsdóttir kom þeim yfir eftir undirbúning frá fyrirliðanum Elísu Viðarsdóttir. Þær sóttu upp hægra megin og sending Elísu kom Ásdísi einni á móti markmanni og Ásdís setti boltann í netið, 1:0

Aðeins fimm mínútum síðar sóttu FH stelpur grimmt og Arna Sif Ásgrímsdóttir fékk tvö skot í sig frá Hildigunni Ýr Benediksdóttir og FH stelpur hættu ekki að sækja. Boltinn fór á miðjan vallarhelming Vals og þaðan kom Berglind Þrastardóttir honum aftur upp á Hildigunni. Hún sendi boltann fyrir og misheppnuð hreinsun hjá Val kom boltanum beint fyrir fætur Elísu Lönu Sigurjónsdóttir sem átti fast skot sem var varið.

 Á 40. mínútu komu svo stór mistök í öftustu línu FH sem endaði í marki. Ásdís Karen komst inn í sendingu sem var ætluð Aldísi Guðlaugsdóttir í marki FH en var arfaslök og Ásdís skilaði boltanum í netið, 2:0. 

Í upphafi seinni hálfleiks sóttu Valsstelpur mikið og litlu mátti muna að Ásdís setti inn þriðja mark hennar eftir fyrirgjöf frá Ísabellu Söru Tryggvadóttir. FH voru þó ekki langt frá því að koma inn marki og fengu m.a. færi á 58. mínútu þegar Sara Montoro slapp í gegn, ein á móti markmanni en Fanney Inga Birkisdóttir gerði vel og lokaði marki Vals.

 Leikurinn hófst klukkan 17.30 en var ekki auglýstur á Instagram reikning Bestu deildarinnar fyrir leik eins og venjan er. Hins vegar eftir að leikurinn var búinn var sett inn auglýsing og sagt að hann myndi byrja klukkan 19.15.

Mikil umræða hefur verið um slaka umfjöllun um Bestu deild kvenna og mjög einfalt er að athuga leiktíma inn á KSÍ.is undir „leikir og mót“ svo þetta er heldur dapurt að mati blaðamanns. 

Myndinni var eytt tveimur tímum eftir leik og ekkert hefur verið sett inn um þetta á reikning þeirra þegar fréttin er skrifuð.

Valur 2:0 FH opna loka
90. mín. Leik lokið
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert