„Ég er bara ágætlega sáttur með dráttinn og ég var sjálfur að vonast til þess að við myndum mæta Danmörku,“ sagði Þorsteinn Halldórsson, þjálfari íslenska kvennalandsliðsins í knattspyrnu, eftir að dregið var í riðla í Þjóðadeild UEFA í dag en keppnin hefst næsta haust.
„Þetta eru allt góð lið sem við erum að fara mæta og fyrirfram eru Þjóðverjarnir klárlega sterkasta liðið í riðlinum. Leikirnir gegn Danmörku og Wales eru svo bara 50/50 leikir að mínu mati. Danmörk var í neðsta liðið í öðrum styrkleikaflokki og Wales var í þriðja sæti í fjórða styrkleikaflokki þannig að ég er bara þokkalega bjartsýnn fyrir þessari keppni.
Markmiðið okkar verður fyrst og fremst að halda okkur í A-deildinni. 16 sterkustu þjóðir Evrópu leika í A-deildinni þannig að það má alveg segja sem svo að styrkleikinn sé svipaður og í lokakeppni EM. Við verðum því ekki í einhverri tilraunastarfsemi í Þjóðadeildinni heldur er markmiðið að stilla upp sínu sterkasta liði,“ sagði Þorsteinn.
Ísland mun leika heimaleikina sína þrjá á fyrstu fjórum leikdögunum í september og október og enda svo á útileikjunum þar ekki er hægt að leika á Laugardalsvelli á þeim tíma.
„Auðvitað hefði verið skemmtilegra að geta dreift heima- og útileikjunum eitthvað og vera ekki í þeirri stöðu að eiga þrjá útileiki eftir mögulega. Við búum hins vegar á Íslandi og við eigum okkar frábæra heimavöll sem er Laugardalsvöllur. Ég verð kominn á elliheimili þegar það breytist, reikna ég með, en þangað til verðum við að gera okkur það að góðu að spila á Laugardalsvelli í núverandi mynd.“
Fari svo að íslenska liðið endi í þriðja sæti riðilsins fer liðið í umspil um sæti í A-deildinni við lið úr B-deild Þjóðadeildarinnar og verða þeir leikir leiknir í febrúar.
„Ef við lendum í þriðja sætinu förum við í umspilsleiki sem verða leiknir heima og að heiman. Staðan er einfaldlega sú að við eigum engan heimavöll til þess að spila á í febrúar og við þyrftum því að spila heimaleikinn í öðru landi, sem er gríðarlega sorgleg niðurstaða,“ bætti Þorsteinn við í samtali við mbl.is.