Fyrsta umferðin í 1. deild kvenna í knattspyrnu hélt áfram í kvöld með þremur leikjum. Víkingur úr Reykjavík, sem er spáð góðu gengi á tímabilinu, hóf það á sigri gegn Gróttu.
Svanhildur Ylfa Dagbjartsdóttir og Bergdís Sveinsdóttir komu heimakonum í Víkingi í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik áður en Hannah Abraham minnkaði muninn fyrir Gróttu þremur mínútum fyrir leikslok.
Víkingur, sem var spáð sigri í deildinni af fyrirliðum, þjálfurum og forráðamönnum liðanna á dögunum, hafði því betur, 2:1, og er komið upp að hlið FHL, sem vann KR með sömu markatölu í upphafsleik deildarinnar í gær.
Fram fékk Grindavík í heimsókn í Úlfarsárdalinn og skildu liðin jöfn, 2:2, eftir hörkuleik.
Una Rós Unnarsdóttir kom Grindvíkingum yfir eftir aðeins tveggja mínútna leik.
Ólína Sif Hilmarsdóttir jafnaði metin fyrir Fram á 25. mínútu og átta mínútum síðar kom Alexa Kirton Frömurum í forystu.
Sjö mínútum fyrir leikslok varð Erika Rún Heiðarsdóttir fyrir því óláni að skora sjálfsmark, jafnaði þannig metin fyrir Grindavík og þar við sat.
Fylkir fékk þá Aftureldingu í heimsókn í Árbæinn og lauk þeim leik sömuleiðis með 2:2-jafntefli.
Sunneva Helgadóttir kom Fylki á bragðið eftir aðeins átta mínútna leik og tvöfaldaði Guðrún Karíta Sigurðardóttir forystuna á 25. mínútu.
Staðan var því 2:0 í leikhléi en Afturelding var búið að jafna metin eftir aðeins klukkutíma leik.
Fyrst skoraði Karmyn Carter á 56. mínútu og Snæfríður Eva Eiríksdóttir jafnaði svo metin á 60. mínútu.
Í uppbótartíma fékk Bjarki Þór Aðalsteinsson, liðsstjóri Aftureldingar, beint rautt spjald.