Stefán Ingi Sigurðarson, framherji úr Breiðabliki, var besti leikmaðurinn í fjórðu umferð Bestu deildar karla í fótbolta að mati Morgunblaðsins.
Stefán fékk tvö M hjá Morgunblaðinu fyrir frammistöðu sína í leik Breiðabliks og Fram síðasta föstudagskvöld en hann skoraði þá þrennu í spennuþrungnum markaleik þar sem Blikar unnu dramatískan sigur, 5:4.
Þetta var aðeins annar byrjunarliðsleikur Stefáns í efstu deild á ferlinum en þann fyrsta spilaði hann haustið 2020.
Hann kom inn á gegn HK í fyrstu umferð deildarinnar í vor og skoraði þá eitt marka Breiðabliks í óvæntum ósigri, 3:4.
Stefán var aftur á ferðinni í annarri umferð en þá kom hann inn á gegn Val á Hlíðarenda og gulltryggði Blikum sigur, 2:0, með marki í uppbótartímanum.
Meira um Stefán og úrvalslið fjórðu umferðar má sjá í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.