Þýskaland, Danmörk og Wales verða andstæðingar Íslands í fyrstu Þjóðadeild UEFA í kvennaflokki sem hefst 20. september og lýkur í lok febrúar 2024.
Tveir fyrstu leikirnir fara fram dagana 20. - 26. september en þeir síðustu í lok nóvember og byrjun desember.
Þýskaland er í 2. sæti á heimslista FIFA, fremsta þjóð Evrópu og sú sigursælasta á stórmótum. Þýskaland hefur átta sinnum orðið Evrópumeistari, síðast 2013, varð heimsmeistari 2003 og 2007 og ólympíumeistari 2016. Ísland hefur unnið Þýskaland einu sinni, 3:2 á útivelli árið 2017, en tapað 15 sinnum.
Danmörk er í 15. sæti heimslistans, einu sæti á eftir íslenska liðinu. Danir fengu silfur á EM 2017 og leika á HM í sjötta sinn í sumar. Ísland hefur unnið Danmörku tvisvar í 13 leikjum þjóðanna, síðast 4:1 í Portúgal árið 2016.
Wales er í 31. sæti heimslistans en hefur aldrei komist í lokakeppni stórmóts. Wales og Ísland gerðu 0:0 jafntefli á Spáni í febrúar. Það var aðeins annar leikur þjóðanna en Ísland vann áður 1:0 árið 1993.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag.