Ég hef byrjað tímabilið mjög vel

Birnir Snær Ingason lætur vaða að marki Keflvíkinga í kvöld.
Birnir Snær Ingason lætur vaða að marki Keflvíkinga í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Birnir Snær Ingason, leikmaður Víkings Reykjavík, var maður leiksins í 4:1 sigri á Keflavík í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.

Birnir lagði upp tvö mörk og átti stóran þátt í hinum tveimur mörkum heimamanna í kvöld og sagðist hann í samtali við mbl.is vera mjög sáttur með sigurinn.

„Það er alltaf gott að vinna, við fengum fleiri færi og hefðum átt að vinna þetta stærra en það er fínt að vinna 4:1. Fáum reyndar á okkur skítamark og það hefði verið gaman að halda hreinu en svona er þetta.“

Birnir hefur verið að finna sig vel í hlutverki sínu hjá Víkingum, úti á vinstri kantinum.

„Ég hef byrjað tímabilið mjög vel og þessi leikur var flottur. Ef ég á að vera hreinskilinn þá hefði ég átt að skora líka í þessum leik, ég fékk tvö eða þrjú dauðafæri sem ég hefði átt að nýta.“

Víkingur situr á toppi deildarinnar með fullt hús stiga eftir fimm leiki. Birnir segir lífið vera ljúft í Víkinni þessa dagana.

„Ef við hefðum ekki fengið þetta mark á okkur í dag þá væri þetta fullkomin byrjun á mótinu. Þetta gengur bara mjög vel og við erum sannfærandi, þannig við höldum bara áfram og sjáum hvert það skilar okkur.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert