Víkingur R. tók á móti Keflavík á Víkingsvelli í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Lokatölur urðu 4:1 heimamönnum í vil.
Eftir leikinn er Víkingur í efsta sæti deildarinnar með fullt hús stiga á meðan Keflavík situr í tíunda sæti með 4 stig.
Leikurinn fór rólega af stað en Víkingur hafði þó nokkra yfirburði úti á vellinum.
Fyrsta færi leiksins fékk Erlingur Agnarsson á 7. mínútu en hann skallaði þá fyrirgjöf Birnis Snæs Ingasonar framhjá markinu.
Á 9. mínútu fékk Oliver Ekroth dauðafæri í teig Keflvíkinga. Pablo Punyed sendi þá boltann fyrir markið, beint á kollinn á Svíanum sterka sem skallaði boltann rétt framhjá markinu.
Keflvíkingar fengu sín færi og það fyrsta kom á 10. mínútu þegar Sami Kamel slapp í gegn, hann skaut að marki en Ingvar Jónsson varði vel í marki heimamanna.
Fyrsta mark leiksins kom á 25. mínútu þegar Birnir Snær Ingason sendi boltann fyrir markið á Pablo Punyed sem skallaði boltann í markið. Mathias Rosenörn, markvörður Keflvíkinga, var nálægt því að verja skallann en boltinn hafði farið yfir línuna og markið dæmt. Heimamenn komnir 1:0 yfir.
Keflvíkingar fengu síðasta færi hálfleiksins þegar Sindri Snær Magnússon átti gott skot að marki sem Ingvar Jónsson, markvörður Víkinga, varði vel. Staðan 1:0 í hálfleik.
Á 57. mínútu tvöfaldaði Erlingur Agnarsson forystu heimamanna. Birnir Snær fór þá framhjá varnarmanni á vinstri kantinum, sendi boltann á Loga Tómasson sem sendi fyrir markið. Þar mætti Erlingur og renndi sér á boltann og kom honum yfir línuna. 2:0 fyrir heimamenn.
Staðan var orðin 3:0 nokkrum mínútum síðar en þá varð Gunnlaugur Fannar Guðmundsson fyrir því óláni að skora sjálfsmark. Birnir Snær átti þá enn eina sendinguna fyrir markið sem fór af Gunnlaugi og í netið.
Keflvíkingar svöruðu strax fyrir sig því að á 65. mínútu skoraði Marley Blair flott mark. Hann fékk boltann fyrir utan teig og lét vaða að marki og réði Ingvar Jónsson ekki við skotið. Staðan orðin 3:1 fyrir heimamenn.
Danijel Dejan Djuric kom heimamönnum í 4:1 forystu á 71. mínútu eftir frábæra skyndisókn. Keflvíkingar áttu þá hornspyrnu sem var skölluð frá, boltinn barst til Birnis Snæs sem átti flotta sendingu innfyrir á Danijel. Hann komst framhjá varnarmanni áður en hann setti boltann undir Rosenörn í marki Keflvíkinga.
Eftir þetta fjaraði leikurinn út og sannfærandi 4:1 sigur Víkinga staðreynd.