Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkings Reykjavík, sagðist í samtali við mbl.is vera sáttur með sigurinn í kvöld. Víkingur vann Keflavík 4:1 á heimavelli í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta.
„Ég er mjög sáttur með sigurinn. Það tók smá tíma að ná fyrsta markinu en menn héldu sig við leikskipulagið og voru þolinmóðir. Keflavík fékk hinsvegar fyrsta færi leiksins þegar Sami Kamel slapp í gegn en Ingvar varði mjög vel, það sýnir að menn mega aldrei missa einbeitinguna í þessum blessaða leik okkar. Við hefðum átt að skora fleiri mörk, það er ég svona mest óánægður með. Það er samt erfitt að kvarta mikið eftir 4:1 sigur.“
Leikmenn Víkings áttu í erfiðleikum með að koma inn fyrsta markinu í kvöld. Arnar var ánægður með spilamennskuna í fyrri hálfleiknum en fannst sínir menn vera örlítið kærulausir fram á við.
„Við fengum fullt af færum og marga góða möguleika. Sumar sóknir voru frábærar og aðrar sóknir voru kæruleysislegar. Við náðum ekki að tengja þessar frábæru sóknir nægilega oft og nægilega lengi. En svo náum við inn markinu og það léttir aðeins á okkur.“
Marley Blair skoraði fyrir Keflvíkinga í dag og varð hann fyrstur til að skora framhjá Ingvari Jónssyni í marki Víkinga í sumar. Arnar sagði það vera fínt að vera búinn að fá á sig þetta mark sem beðið hafði verið eftir.
„Það er bara fínt að við fáum þetta mark á okkur. Nú er þessi umræða bara búin og við getum farið að einbeita okkur að einhverju öðru.“
Birnir Snær Ingason var maður leiksins í kvöld en hann lagði upp tvö mörk og kom einnig að hinum tveimur mörkum heimamanna. Arnar segir Birni hafa tekið ákvörðun um að æfa eins og atvinnumaður í vetur og það sé að skila sér.
„Allir á Íslandi hafa gert sér grein fyrir hans hæfileikum í mörg ár. Þetta er mikið honum sjálfum að þakka, hann fann einhvern neista hjá sjálfum sér og fór að haga sér eins og atvinnumaður. Hann æfir mjög vel, hugsar vel um sig og er meira að segja farinn að bæta varnarleikinn mikið. Það er frábært fyrir mig sem þjálfara sem og klúbbinn að hann sé að stíga þetta skref núna.“
Birnir og Logi Tómasson tengja mjög vel saman á vinstri kantinum. Arnar segir að það sé erfitt fyrir hvaða lið sem er að stoppa þá þegar þeir eru í góðum gír.
„Það er erfitt að eiga við þá. Þegar við náum sóknarlotunum í gang þá er erfitt að eiga við okkur. Mér finnst við enn eiga eftir að ná þessum sóknarlotum í 90 mínútur, þetta er að koma í köflum núna en mér finnst við eiga að geta gert þetta yfir lengri tíma í leikjum.“
Næsti leikur Víkinga er á móti ÍBV í Vestmannaeyjum. Arnar býst við hörkuleik.
„Þetta er örugglega einn erfiðasti útileikur tímabilsins. Þetta verður barningur og allt öðruvísi fótbolti en við spiluðum hér í kvöld á rennisléttu teppinu. Þetta er bara einn leikur í einu, áfram gakk og sjáum hverju það skilar okkur.“