Logi Tómasson, leikmaður Víkings Reykjavík, sagðist í samtali við mbl.is vera mjög ánægður með 4:1 sigur sinna manna á Keflavík í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
„Góður sigur hjá okkur í dag og góð liðsframmistaða hjá okkur enn og aftur. Pirrandi að fá þetta mark á okkur, við leggjum mikið upp úr því að halda hreinu en fáum á okkur eitt í dag.“
Arnar Gunnlaugsson, þjálfari Víkinga, var duglegur að öskra á sína menn af hliðarlínunni í dag, sérstaklega í fyrri hálfleik. Logi segir að fyrri hálfleikurinn hafi svo sannarlega ekki verið sá besti sem Víkingar hafa sýnt á tímabilinu.
„Þetta var alls ekki besti hálfleikur sem við höfum spilað. Við náum að skora eitt mark og þetta var svona allt í lagi frammistaða en við spiluðum mjög vel í seinni og vorum hættulegir fram á við. Við klárum leikinn frekar snemma í seinni hálfleik en gefum aðeins eftir þegar við erum komnir í 3:0. Það er erfitt að vera endalaust á bensíngjöfinni þegar við erum tveimur til þremur mörkum yfir en við sigldum þessu þægilega heim.“
Logi hefur verið að spila vinstri bakvörð í undanförnum leikjum en hann kemur mikið inn á miðjuna í sóknarleik Víkinga. Hann segist vera mjög ánægður með þessa þróun á leik sínum og hrósar Arnari Gunnlaugssyni þjálfara.
„Ég held að ég sé búinn að spila allar stöður í þessu liði. Arnar er duglegur að halda manni á tánum og gerir það vel með því að láta mann spila út um allt. Maður er búinn að vera lengi í þessu liði og með Arnari, það verður til þess að maður kann nánast að spila allar stöður sem er mjög gott.“
Næsti leikur Víkinga er á móti ÍBV í Vestmannaeyjum. Logi segir að Víkingar mæti klárir í þann leik.
„Þetta verður baráttuleikur og við þurfum að spila góðan varnarleik á móti þeim. Það er bara áfram gakk og vinna alla leiki, þá endar þetta bara á einn veg.“ sagði Logi glaður í bragði.