Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, sagði í viðtali við mbl.is sína menn hafa átt við ofurefli að etja í kvöld þegar hans menn töpuðu 4:1 fyrir Víkingi Reykjavík í fimmtu umferð Bestu deildar karla í fótbolta.
„Það voru plúsar og mínusar í þessum leik, hann hefði kannski þróast öðruvísi ef við hefðum nýtt færið sem við fengum í upphafi leiks. Víkingarnir voru mjög góðir í dag, gerðu okkur erfitt fyrir og eiga sigurinn fullkomlega skilið.
Mér fannst við vera í basli með þá, það er gæðamunur á liðunum en það hjálpar okkur ekki að flestir varnarmenn okkar eru meiddir. Það er ekkert óeðlilegt kannski að það hafi legið svolítið á okkur. Það eru samt líka plúsar í þessu, Marley Blair skorar og er kominn á blað fyrir okkur. Þannig það er alveg hægt að taka eitthvað jákvætt út úr þessum leik.“
Nacho Heras, miðvörður Keflavíkur, fór útaf meiddur í hálfleik eftir að hafa fengið högg í fyrri hálfleik. Sigurður sagði að það liti ekkert alltof vel út með Spánverjann.
„Hann fær þungt högg og bólgnar strax mikið upp. Hann kemur út af í hálfleik og er draghaltur núna eftir leikinn, maður vonar bara það besta með hann.“
Sigurður hrósaði Víkingum í hástert eftir leikinn.
„Þetta er frábært lið hjá Arnari og engin tilviljun að þeir séu á toppnum og búnir að vinna alla leikina sína. Það eru ofboðslega mikil gæði í leikmannahópnum hjá þeim, það sést kannski best á varamannabekknum í kvöld. Það hlýtur að vera gaman fyrir Arnar að vinna með þessum leikmönnum, þeir eru allir í flottu formi og spila vel saman sem lið. Þetta er eitt af sterkustu liðum sem ég hef mætt síðan ég tók við Keflavík.“
Keflavík er eftir leikinn í 10. sæti deildarinnar með 4 stig eftir fimm leiki.
„Við skoðum stöðutöfluna betur þegar mótið er hálfnað, það er ágætt að miða við það þegar öll lið hafa mæst einu sinni. Við höfum átt fína leiki en höfum kannski verið pínu óheppnir að nýta ekki færin okkar betur, þá værum við með aðeins fleiri stig en við þurfum bara að halda áfram og gera betur í næstu leikjum.“