KA vann öflugan útisigur á HK, 2:1, í Kórnum í Bestu deild karla í knattspyrnu í dag.
Heimamenn í HK voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og virtust hreinlega hlaupa gestina í kaf fyrsta hálftíma leiksins eða svo. Pressa HK-inga var góð og KA-liðið var í miklum vandræðum með að ná upp spili, bæði út úr vörninni og úti á velli. Örvar Eggertsson og Eyþór Aron Wöhler hlupu að vanda mikið og sköpuðu marga tapaða bolta í KA-liðinu.
Fyrsta mark leiksins kom á 22. mínútu og var það afar huggulegt. KA var þá framarlega með liðið þegar heimamenn komust í boltann og færðu hann út til vinstri á Marciano Aziz. Hann tók á rás í átt að teignum með Þorra Mar Þórisson til varnar og þegar hann nálgaðist teiginn fór hann á hægri fótinn og smellti boltanum í fjærhornið. Skotið fór af Dusan Brkovic sem kom á mikilli ferð til að reyna að bjarga og í stöngina og inn, algjörlega óverjandi fyrir Steinþór Má Auðunsson í marki KA.
Eftir markið voru heimamenn áfram sterkari en gestirnir unnu sig þó hægt og rólega betur inn í leikinn. Bæði lið fengu ágætis tækifæri til að bæta við mörkum í leikinn en staðan var enn 1:0 þegar liðin gengu til búningsherbergja í hálfleik.
KA menn gerðu breytingu í hálfleik en Ásgeir Sigurgeirsson kom inn fyrir Pætur Petersen. Við breytinguna færðist miklu meiri kraftur í liðið og var allt annað að sjá til þeirra í seinni hálfleik. Á 62. mínútu jöfnuðu gestirnir svo metin en þar var Ásgeir einmitt að verki. Birkir Valur Jónsson hægri bakvörður HK tapaði boltanum þá á mjög slæmum stað til Hallgríms Mar Steingrímssonar sem gerði allt rétt, fór upp að endamörkum og lagði boltann fyrir markið á Ásgeir sem skoraði af stuttu færi.
Ásgeir var þó ekki hættur því á 76. mínútu fékk hann boltann hægra megin á vellinum við miðlínu. Hann tók á rás í átt að teignum, dansaði framhjá hverjum varnarmanni HK á fætur öðrum og lafði boltann svo að lokum framhjá Arnari Frey í marki HK. Algjörlega stórbrotið mark hjá Ásgeiri.
Þetta reyndist sigurmark leiksins en KA liðið lenti ekki í miklum vandræðum með að verja forystuna eftir að hafa komist yfir. KA er því komið upp fyrir HK, í þriðja sæti deildarinnar en liðið er nú með 11 stig. HK er í fjórða sæti með 10.