„Ekki allt ömurlegt þó maður tapi“

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur.
Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Sigurður Ragnar Eyjólfsson, þjálfari Keflavíkur, sagðist í samtali við mbl.is vera ósáttur með ósigurinn á móti FH en samt væri hann ánægður með orkuna og viljann í sínu liði.

Keflavík tapaði á móti FH, 2:1 í sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld en leikurinn fór fram í Kaplakrika.

„Ég var ánægður með mjög margt í leiknum, fannst við sýna mikinn vilja og baráttu. Náum að minnka muninn þegar Viktor Andri skorar með sinni fyrstu snertingu, eftir það urðu FH-ingarnir mjög stressaðir og við settum þá undir mikla pressu. Ég vil bara að leikmenn mínir komi svona inn í leikinn frá byrjun, við höfum byrjað allt of marga leiki illa.

Við gáfum þeim mjög ódýr mörk, sérstaklega seinna markið en frábært hjá Kjartani Henry að klára færið, það er enginn betri í þessu heldur en hann. En mér fannst góð barátta í mínu liði, það vantaði marga leikmenn en þeir sem spiluðu í dag sýndu mér að þeir vilja vera í liðinu.“

Sigurður Ragnar gerði fjórar breytingar á liði sínu frá tapinu á móti Víkingum í síðustu umferð. Sigurður segir að meiðsli séu að herja á sína menn.

„Það eru meiðsli að herja á okkur. Dagur Ingi Valsson, Sami Kamel og Frans Elvarsson voru ekki með og þeir eru stórir póstar í okkar liði. Það kemur hins vegar alltaf maður í manns stað og við endurheimtum Magnús Þór, fyrirliða okkar, sem er frábært. Mér fannst frábært að sjá viljann í þessu Keflavíkurliði og það er ekki allt ömurlegt þótt maður tapi, vissulega er maður samt svekktur. En við þurfum að taka þetta jákvæða með okkur og halda áfram.“

Fréttaritari var staddur á síðasta leik Keflvíkinga á móti Víkingum og fannst honum vera allt annað að sjá til Keflvíkinga í þessum leik. Sigurður var sammála því og fannst honum hans menn hafa haft meiri trú á sjálfum sér í þessum leik.

„Víkingarnir áttu mjög góðan dag á móti okkur en ég er algjörlega sammála því sem þú segir. Við erum með lið sem er að bæta sig jafnt og þétt finnst mér, við höfum verið pínu óheppnir með meiðsli en núna stigu menn upp sem fengu sénsinn og spiluðu vel.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert