„Feginn að vera ekki í veseninu hjá KR“

Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, var á skotskónum í kvöld.
Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, var á skotskónum í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, var ánægður með 2:1-heimasigur sinna manna á Keflavík í sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í dag.

„Ég er gríðarlega sáttur, það skiptir öllu máli að vinna. Það er gaman að komast á Kaplakrikavöll, sína alvöru frammistöðu fyrir framan okkar fólk og vinna leikinn.“

Leikurinn fór fram á aðalvelli FH-inga en þetta var fyrsti leikur sumarsins á vellinum. Fyrstu tveir heimaleikir sumarsins voru spilaðir á Miðvelli, frjálsíþróttavelli félagsins. Kjartan segir að völlurinn hafi ekki verið tilbúinn en FH-ingar hafi gert sitt besta þrátt fyrir það.

„Ég held að fólk sjái það nú alveg að það var ekkert að gamni gert að spila uppi á Miðvelli. Völlurinn er ekki tilbúinn, ekki frekar en aðrir grasvellir. Við unnum báða leiki okkar uppi á Miðvellinum og það var mikilvægt fyrir okkur að halda sigurgöngu okkar áfram á heimavelli.“

Kjartan skoraði fallegt mark í leiknum þegar hann lyfti boltanum yfir Mathias Rosenörn, markvörð Keflvíkinga. Kjartan var ánægður með markið.

„Ég er búinn að skora frekar óvenjuleg Kjartan Henry mörk upp á síðkastið, þannig það var gott að fá eitt alvöru. Ég slapp einn í gegn í fyrri hálfleik og náði ekki góðu skoti, það er reyndar ástæða fyrir því en ég er búinn að vera slæmur í ökklanum og hann var svolítið laus í þessu skoti þannig ég náði ekki krafti í það. En það var sætt að sjá boltann í netinu í seinni hálfleik og það gaf okkur sjálfstraust og trú á að við myndum vinna í kvöld.“

Það vakti athygli í gær þegar stuðningsmenn KR fóru að syngja nafn Kjartans Henry í stúkunni þegar KR tapaði illa fyrir Val. Kjartan segist vera þakklátur fyrir að stuðningsmenn KR séu ekki búnir að gleyma sér.

„Ég sá þetta og þykir vænt um að það sé ekki strax búið að gleyma manni. Það skiptir kannski meira máli fyrir börnin mín og konu en við erum einmitt búsett í Vesturbænum. Nú er ég samt bara með fullan fókus á FH og er feginn að vera ekki í veseninu sem er í gangi hjá KR núna. Nú finnst mér skemmtilegra að stuðningsmenn FH séu ánægðir með mig og er mjög þakklátur fyrir móttökurnar síðan ég kom yfir því það er örugglega ekkert auðvelt að bjóða einhvern velkominn sem þú hefur hatað í mörg ár. Það hefur verið mjög vel tekið á móti mér.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert