„Mér finnst þetta bara gríðarlega svekkjandi, það er óhætt að segja það,“ sagði Ragnar Bragi Sveinsson fyrirliði Fylkis eftir sárgrætilegt 1:2-tap fyrir Blikum í Árbænum í kvöld eftir að sigurmarkið kom í blálokin en leikið var í 6. umferð efstu deildar karla í fótbolta.
„Við spiluðum eins og við lögðum upp með og frammistaða allra mjög góð en einbeitingarleysi í síðari markinu þegar við náum einhvern veginn ekki að gæta þeirra og koma við þá, það mark skilur á milli og okkur var refsað.“
Í leiknum á undan þessum í kvöld tapaði Fylkir heldur illa fyrir Val en fyrirliðinn sagði menn hafa lært af því. „Við svöruðum fyrir frammistöðu í síðasta leik, vorum nú þéttari með grunninn í lagi ásamt skipulagi og baráttu. Við fengum líka fín færi og náðum líka að loka á Breiðablik, sem er Íslandsmeistari og frábært lið. Við getum tekið þessa frammistöðu með okkur í framhaldið, sérstaklega þegar við svörum fyrir slakan leik þar á undan. Við þurfum nú að berja okkur saman sem lið því síðasta tap tók á, sérstaklega fyrir ungan leikmannahóp og menn fullorðnast hratt í þessari deild og það er á hreinu að við tökum frammistöðuna í þessum leik með í þann næsta.“
Arnór Gauti Jónsson átti góðan leik fyrir Fylki og stóð í ströngu við að hemja sóknarmenn Blika. „Það var virkilega fúlt að fá á sig mark á síðustu mínútu leiksins, sérstaklega þar sem við vorum búnir að fá mörg föst leikatriði á okkur og verjast þeim öllum en svo kemur ömurlegt mark, sem skilur á milli og það er hundfúlt,“ sagði Arnór Gauti eftir tapið fyrir Blikum.
„Við lögðum upp með að vera þéttir og loka miðjunni, þar sem Blikar reyna alltaf að komast í gegn svo mér fannst þeir ekki fá mörg færi, fá þversendingu í fyrra markinu og skora úr föstu leikatriði það seinna en þegar maður er þéttur á móti þeim opnast mikil tækifæri þar sem þeir sækja á mörgum mönnum. Við nýttum okkar það til að skora en nýtum svo færin eftir það ekki nógu vel og fáum það svo í bakið í blálokin.“
Fylkismenn hljóta að hafa lært af tveimur síðustu leikjum, hrikalegu tapi fyrir Val og síðan góðum leik við Breiðablik, þrátt fyrir tapið og varnarmaðurinn tók undir það. „Það er stutt á milli leikja í þessu móti og það er bara gaman því maður vill frekar spila leiki en æfa. Menn þurfa nú bara að endurstilla sig, taka einn dag fyrir í einu. Við vorum fúlir eftir síðasta leik en breytum ekki fortíðinni svo það er bara áfram gakk og næsti leikur. Við reynum nú fram að næsta leik að læra hvað við getum gert betur og lagfæra það sem þarf að laga. Það er eina vitið að lifa og læra í þessu.“