FH tók á móti Keflavík í sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld. Leikið var á Kaplakrikavelli og urðu lokatölur 2:1.
Eftir leikinn er FH í 5. sæti með 10 stig en Keflvíkingar eru í 9. sæti með 4 stig.
Leikurinn fór mjög rólega af stað og enkenndist af miklu miðjumoði. Kjartan Henry Finnbogason, leikmaður FH, fékk fyrsta færi leiksins á 10. mínútu þegar hann fékk fyrirgjöf frá Ólafi Guðmundssyni. Kjartan snéri af sér varnarmann og lét vaða að marki en Mathias Rosenörn varði vel í markinu.
Gestirnir fengu gott færi á 22. mínútu leiksins þegar Jordan Smylie slapp einn í gegn en Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, varði vel í marki heimamanna.
Kjartan Henry Finnbogason komst í dauðafæri á 33. mínútu leiksins þegar hann fékk sendingu inn fyrir vörnina. Kjartan skaut að marki en Rosenörn varði skot hans í stöngina og Keflvíkingar komu boltanum frá.
Fyrsta mark leiksins kom á 39. mínútu en þar var að verki Úlfur Ágúst Björnsson. Vuk Oskar Dimitrijevic fékk þá boltann á vinstri kantinum, lagði boltann út á Úlf sem fór fram hjá einum varnarmanni áður en hann átti gott skot að marki sem Rosenörn réði ekki við. FH komið yfir, 1:0.
Jordan Smylie fékk færi undir lok fyrri hálfleiksins til að jafna leikinn en skot hans var slakt og fór beint á Sindra í markinu.
Vilhjálmur Alvar Þórarinsson, góður dómari leiksins, flautaði síðan til hálfleiks og staðan 1:0 fyrir heimamenn.
Á 52. mínútu kom annað mark leiksins þegar Kjartan Henry Finnbogason tvöfaldaði forystu FH-inga. Edon Osmani, leikmaður Keflavíkur sem hafði komið inn á í hálfleik, átti þá skelfilega sendingu til baka á markvörð sinn. Rosenörn hikaði í markinu og Kjartan Henry nýtti sér það, komst inn í sendinguna og lyfti boltanum frábærlega yfir Rosenörn. Verðskulduð 2:0 forysta FH.
Fátt markvert gerðist þar til á 85. mínútu en þá minnkuðu Keflvíkingar muninn. Viktor Andri Hafþórsson, sem hafði komið inn á 10 sekúndum áður, fékk þá boltann til sín eftir klafs inni í teig FH-inga. Viktor lét vaða að marki og söng boltinn í netinu. Draumainnkoma hjá Viktori og staðan orðin 2:1.
Keflvíkingar reyndu hvað þeir gátu að jafna metin en höfðu ekki erindi sem erfiði og urðu lokatölur 2:1 fyrir FH.
M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða birt í Morgunblaðinu í fyrramálið.