Sigurvin Ólafsson, aðstoðarþjálfari FH, sagðist í samtali við mbl.is vera mjög sáttur við 2:1 heimasigur sinna manna á Keflavík í sjöttu umferð Bestu deildar karla í fótbolta í kvöld.
„Við þurftum að svara fyrir frammistöðu okkar í síðasta leik og við gerðum það. Það er frábært að við höfum ekki enn tapað stigi á heimavelli í sumar.“
Sigurvin var ánægður með spilamennsku sinna manna í kvöld.
„Mér fannst við vera með leikinn í teskeið lengst af. Fyrri hálfleikur var mjög góður, við vorum betri og fengum tvö dauðafæri áður en við skorum fyrra markið. Í byrjun seinni hálfleiks komumst við í 2:0 og erum nokkuð öruggir á þessu. Þá fara Keflvíkingar á fullt, taka sénsa og ná að pressa svolítið á okkur án þess þó að skapa sér einhver færi. Þeir dældu boltanum inn í teiginn og það lak inn eitt mark hjá þeim, þá kom smá stress en við kláruðum þetta vel.“
Sindri Kristinn Ólafsson, markvörður FH, var flottur í marki heimamanna í kvöld á móti sínum gömlu félögum og hrósaði Sigurvin honum eftir leik.
„Sindri átti algjöran stórleik í dag! Hann var mjög öruggur í öllum sínum aðgerðum og grípur vel inn í þessa löngu bolta sem Keflvíkingar beittu. Hann gerir mjög vel þegar þeir voru farnir að pressa á okkur undir lokin. Hann dreifir boltanum vel frá sér og varði það sem hann átti að verja, var líflegur og naut sín.“
Kjartan Henry Finnbogason, framherji FH, skoraði annað mark liðsins í kvöld. Sigurvin segir það vera feng fyrir FH að hafa fengið Kjartan til liðsins fyrir tímabilið.
„Það er frábært fyrir okkur að hann sé hér, þetta er ástæðan fyrir því að við tókum hann til okkar. Hann klikkar á dauðafæri í fyrri hálfleik og hann vissi alveg af því, hann lét sjálfan sig aðeins heyra það í hálfleik og ég vissi það þá að hann myndi skora í seinni hálfleik.“
Leikurinn í kvöld var fyrsti leikur FH á aðalvelli sínum en fyrstu tveir heimaleikir liðsins höfðu farið fram á Miðvelli, frjálsíþróttavelli FH-inga. Sigurvin sagði það gott að geta loksins spilað á aðalvellinum.
„Hann er náttúrlega ekki góður, ekki frekar en aðrir grasvellir landsins. Það var samt yndislegt að spila á okkar velli, fyrir framan stúkuna og aðdáendur okkar. Það var gott að geta gefið þeim sigur og góða frammistöðu hér í kvöld.“