Sex mörk og rautt spjald

Karítas Tómasdóttir og Anita Lind Daníelsdóttir eigast við í leik …
Karítas Tómasdóttir og Anita Lind Daníelsdóttir eigast við í leik liðanna í fyrra. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Breiðablik vann útisigur á Keflavík, 6:0, í 3. umferð Bestu deildar kvenna í fótbolta í kvöld í afar viðburðarríkum leik á gervigrasvellinum við Reykjaneshöllina.

Breiðablik er þar með komið í efsta sæti deildarinnar með sex stig og betri markatölu en Valur og Þróttur sem eiga leik til góða. Keflavík tapaði sínum fyrsta leik og er með fjögur stig.

Það var ljóst frá fyrstu mínútu leiksins í hvað stefndi. Breiðablik var miklu betra liðið á öllum sviðum. Fyrsta mark leiksins kom eftir aðeins 58 sekúndur. Þá skoraði Andrea Rut Bjarnadóttir eftir fyrirgjöf, 1:0.

Á 23. mínútu leiksins sendi Agla María Albertsdóttir boltann fyrir markið og Kristrún Ýr Holm setti boltann í eigið mark. Staðan var 2:0 fyrir Breiðabliki.

Aðeins rúmlega mínútu síðar fékk Breiðablik vítaspyrnu þegar Júlía Ruth Thasaphong fór í bakið á leikmanni Breiðabliks. Júlía uppskar gult spjald fyrir brotið. Úr vítinu skoraði Agla María Albertsdóttir og staðan var þá orðin 3:0.

Örfáum andartökum síðar fékk Júlía sitt annað gula spjald og þar með rautt þegar hún virtist gefa leikmanni Breiðabliks olnbogaskot. Leikmanni færri átti Keflavík aldrei möguleika í leiknum.

Á 39. mínútu leiksins skoraði Katrín Ásbjörnsdóttir fjórða mark Breiðabliks eftir að Hafrún Rakel Halldórsdóttir skaut boltanum í þverslá. Þannig stóðu leikar í hálfleik, 4:0 fyrir Breiðabliki.

Í síðari hálfleik þróaðist leikurinn á sömu leið og sá fyrri. Breiðablik sótti stíft og uppskar tvö mörk til viðbótar. Á 49. mínútu skoraði Taylor Ziemer með fallegu skoti utan vítateigs og á 64. mínútu skoraði Hafrún Rakel Halldórsdóttir glæsilegt mark hægra megin úr vítateignum eftir sendingu frá Öglu Maríu Albertsdóttur.

Lokatölur voru 6:0 fyrir Breiðabliki í algjörum einstefnuleik.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða birt í Morgunblaðinu í fyrramálið. 

Keflavík 0:6 Breiðablik opna loka
90. mín. Varadómarinn gefur til kynna að 3 mínútum sé bætt við leiktímann.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert