Gísli hetjan og KR í fallsæti

Jason Daði Svanþórsson úr Breiðabliki í baráttunni við Olav Öby …
Jason Daði Svanþórsson úr Breiðabliki í baráttunni við Olav Öby og Finn Tómas Pálmason úr KR í dag. mbl.is/Óttar Geirsson

Gísli Eyjólfsson var hetja Breiðabliks er liðið vann 1:0-útisigur á KR í Bestu deild karla í fótbolta í dag. Hann skoraði sigurmarkið á 82. mínútu.

Breiðablik hefur unnið fjóra leiki í röð og er í þriðja sæti með 15 stig. KR hefur hins vegar tapað fimm í röð og er með fjögur stig í ellefta sæti.

Þetta var fyrsti heimaleikur KR á grasinu á Meistaravöllum en grasið var alls ekki 100% fyrir leikinn, enda eru ennþá brúnir blettir hér og þar.

Bæði lið ætluðu að leggja allt í sölurnar að ná úrslitum en Blikar voru ívið sterkari og var Höskuldur Gunnlaugsson helst ógnandi með sínum sendingum inn á teig heimamanna.

Þegar vel var liðið á fyrri hálfleik fengu Blikar fjórar hornspyrnur í röð og settu mikla pressu á KR-ingana. Eftir það var mikil barátta á milli liðanna þar sem liðin skiptust á sækja án þess að eiga hættuleg færi. Staðan í hálfleik 0:0.

Síðari hálfleikur fór af stað af krafti og Blikar fóru strax í álitlega sókn þar sem Jason Daði var líklegur að komast í hörkufæri en svo var brotið á honum og í kjölfarið fékk KR sitt besta færi á 48. mínútu þegar Kristinn Jónsson átti flotta sendingu á fjærstöng en Jóhannes Kristinn Bjarnason setti boltann rétt framhjá.

Í kjölfarið fór veðrið að versna og bæði lið reyndu að spila og gera eitthvað í þessum aðstæðum en lítið var að frétta. Blikar sterkari og áttu fínar sóknir en KR-ingar öflugir í vörninni.

Greinilegt var að upplegg heimamanna var að halda hreinu, enda var varnarleikurinn öflugur og skipulagður með Finn Tómas Tómasson fremstan í flokki.

En það var svo á 82. mínútu að gestirnir úr Kópavogi náðu að brjóta ísinn og skora sigurmarkið. Eftir glæsilega sókn þá átti Höskuldur Gunnlaugsson glæsilega hælsendingu á Gísla Eyjólfsson sem skoraði flott mark með góðu skoti í hægra hornið, 1:0 fyrir Breiðabliki.

Bæði lið reyndu að berjast en heimamenn í KR náðu ekki að ógna að neinu viti.

Oliver Sigurjónsson var öflugur í liði Blika, enda mikið í boltanum á miðjunni. Höskuldur Gunnlaugsson og Jason Daði sýndu líka flotta takta enda var mikið leitað til þeirra.

KR 0:1 Breiðablik opna loka
90. mín. Uppbótatími 3 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert