ÍBV fékk Þrótt úr Reykjavík í heimsókn þegar liðin mættust í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í knattspyrnu í kvöld. Enduðu leikar 3:0 fyrir ÍBV.
Fyrir leikinn var Þróttur á toppi deildarinnar með sjö stig en ÍBV var með þrjú stig eftir einn sigur og tvo tapaða leiki.
Mikill vindur var á Hásteinsvelli í kvöld og byrjuðu Eyjakonur með vindi. Þær nýttu vindinn vel og skoruðu þrjú mörk. Það var Þóra Björg Stefánsdóttir sem nýtti tækifærið hvað best og skoraði fyrst þegar aðeins fimm mínútur voru liðnar af leiktímanum, en þá skoraði hún beint úr hornspyrnu.
Hún skoraði svo aftur á 36. mínútu og þá beint úr aukaspyrnu.
„Það var gott að fá fleiri til að skora. Holly [O’Neill] er í banni núna og við vorum ekkert búnar að skora nema það mark í þremur leikjum þannig að það var mjög flott að ég skyldi skora og Olga [O’Neill] og fleiri að gera sig líklegar. Orðin meiri breidd sóknarlega hjá okkur“ sagði Þóra Björg þegar mbl.is gaf sig á tal við hana.
Eins og komið hefur fram var mikið rok á Hásteinsvelli í kvöld sem setti svip sinn á leikinn.
„Ég elska að spila svona leiki. Mér finnst gaman að spila í roki, þegar maður þarf að reikna út hvert boltinn fer. Ég er góð í að reikna boltann. Við bjuggumst við nákvæmlega svona leik. Baráttuleik og miklu roki. Svona eru bara þannig leikir.
Við vorum mjög fegnar að hafa skorað þrjú mörk í fyrri hálfleik af því að þær voru með vindinn í seinni. Það kom mér á óvart hvað þær nýttu hann lítið. Ég var mjög ánægð með liðið, sérstaklega í seinni hálfleik að halda þessu,“ sagði hún.
Eftir leikinn er ÍBV komið með sex stig eftir fyrstu fjóra leikina.
„Við hefðum viljað gera betur í leiknum á móti Stjörnunni og á móti Þór/KA en við höldum bara áfram héðan,“ sagði Þóra Björg að lokum.
Næsti leikur liðsins er á útivelli á móti Val mánudaginn 22. maí. Valur þarf hinsvegar fyrst að fara í Garðabæ og spila við Stjörnuna á morgun í fjórðu umferð.