Þriggja marka sigur ÍBV

Boltinn á leið í mark Þróttar beint úr hornspyrnu Þóru …
Boltinn á leið í mark Þróttar beint úr hornspyrnu Þóru Bjargar Stefánsdóttur. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

ÍBV vann öruggan sigur á Þrótti úr Reykjavík, 3:0, í Bestu deild kvenna í fótbolta á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum í kvöld.

Þóra Björg Stefánsdóttir skoraði beint úr hornspyrnu strax á 6. mínútu og Olga Sevcova bætti við öðru marki á 27. mínútu. Þóra skoraði sitt annað mark beint úr aukaspyrnu á 37. mínútu, 3:0 í hálfleik, og þar við sat.

Þetta er fyrsta tap Þróttar sem er með sjö stig eftir fjóra leiki. ÍBV vann sinn annan sigur og er komið með sex stig.

Ótrúlegt en satt þá var mjög vindasamt á Hásteinsvelli og voru það heimamenn sem byrjuðu með vindi. Það tók Þóru Björg Stefánsdóttur, leikmann ÍBV, ekki nema fimm mínútur að nýta sér vindinn þegar hún kom boltanum í markið beint úr hornspyrnu. Ansi laglegt hjá Þóru þarna. Staðan var þá orðin 1:0 fyrir ÍBV og ekki nema fimm mínútur búnar af leiknum.

Rúmum tuttugu mínútum seinna, eða á 26.mínútu, var það Olga Sevcova sem stakk sér í gegnum vörn Þróttara eftir stoðsendingu frá engri annarri en Guðnýju Geirsdóttur markmanni ÍBV.

Það var svo á 36. mínútu sem ÍBV fékk aukaspyrnu fyrir utan teig gestanna og var það Þóra Björg sem tók spyrnuna með þeim afleiðingum að boltinn söng í netinu. Staðan var þá orðin 3:0 fyrir ÍBV og brekkan orðin afar brött hjá Þrótti Reykjavík.

Ekki gerðist meira markvert í fyrri hálfleik og 3:0 staðreynd þegar liðin gengu til búningsherbergja. Vindasamur fyrri hálfleikur var að baki þar sem heimakonur spiluðu með vindi og nýttu hann vel. Þóra Björg Stefánsdóttir, sóknarmaður ÍBV, var að eiga frábæran leik hingað til.

Þróttarar byrjuðu seinni hálfleik af krafti og áttu á fyrstu tíu mínútum að minnsta kosti þrjú flott færi en Guðný Geirsdóttir í marki ÍBV hélt nú ekki og varði vel.

Það var svo á 84. mínútu sem Tanya Boychuk átti frábært skot að marki Eyjakvenna en Guðný var enn og aftur vel á verði og inn vildi boltinn ekki.

Síðasta færi leiksins var á 88. mínútu þegar Viktorija setti hann inn fyrir vörn Þróttara og Selma Björt gerði vel og kom sér í færi. Íris Dögg í markinu var vel staðsett og kom í veg fyrir að ÍBV setti annað mark.

Verðskulduð þrjú stig hjá heimakonum hér í kvöld. Það má segja að þessi þrjú mörk sem skoruð voru í fyrri hálfleik hafi gert út um leikinn. Þróttarar áttu nokkur flott færi í seinni hálfleik en liðskonur þar voru ekki líklegar til að stela stigum, hvað þá sigrinum, hér í kvöld.

Guðný Geirsdóttir var algjörlega frábær í marki Eyjakvenna og ÍBV komið með sex stig eftir fjóra leiki.

Næsti leikur Þróttara er á heimavelli á móti Þór/KA sem komst í efsta sætið í kvöld þegar liðið vann Breiðablik á heimavelli og er þar með komið með níu stig.

Næsti leikur ÍBV er á móti Val á Hlíðarenda mánudaginn 22. maí næstkomandi.

M-einkunnagjöfin og einkunn dómara verða í Morgunblaðinu í fyrramálið.

ÍBV 3:0 Þróttur R. opna loka
90. mín. Uppbótatími hér á Hásteinsvelli er að minnsta kosti 5 mínútur.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert