„Mér fannst við spila mjög vel, við fórum aðeins að sparka langt undir lokin en ég var ánægð með baráttuna í okkur og við fórum loksins að spila okkar leik. Þannig að ég er bara ánægð,“ sagði Eva Lind Elíasdóttir, annar markaskorara Selfoss í 3:1-sigrinum á Tindastóli í Bestu deildinni, eftir leik á Selfossi í kvöld.
„Eftir að við jöfnuðum 1:1 þá stýrðum við umferðinni. Við gerðum reyndar nokkur mistök sjálfar, þar sem við vorum að koma þeim í góða stöðu, en annars vorum við bara að standa okkur mjög vel,“ sagði Eva Lind, sem átti afbragðs leik og skoraði annað mark Selfoss með glæsilegum skalla eftir sendingu frá Barbáru Sól Gísladóttur á 43. mínútu. Þetta var fyrsta mark Evu Lindar í efstu deild í fimm ár, en hún skoraði síðast gegn FH 23. maí 2018.
„Fyrsta markið í fimm ár, það er rosalegt!“ sagði Eva hlæjandi. „Það var mjög góð tilfinning að skora og ég get alveg sagt þér það að þetta er búið að opna allar gáttir hjá mér núna. Ég sá Barbáru úti á kantinum og hljóp í opið svæði inn í teignum og skallaði hann bara inn. Við erum búnar að vera að æfa þetta og ég vissi nákvæmlega hvað við vorum að fara að gera. Ég viðurkenni alveg að ég er búin að vera að bíða eftir markinu,“ sagði Eva Lind létt að lokum.