Dómarinn baðst afsökunar eftir leik

Murielle Tiernan framherji Tindastóls í baráttu við Írisi Unu Þórðardóttur …
Murielle Tiernan framherji Tindastóls í baráttu við Írisi Unu Þórðardóttur og Sigríði Theodóru Guðmundsdóttur. mbl.is/Óttar Geirsson

Halldór Jón Sigurðsson, þjálfari Tindastóls, var sáttur við spilamennskuna hjá sínu liði á stórum köflum í kvöld, þrátt fyrir 3:1-tap gegn Selfossi í Bestu deild kvenna á Selfossvelli.

„Við byrjuðum af miklum krafti. Fyrstu tíu, fimmtán mínúturnar voru góðar af okkar hálfu. Síðan fengum við á okkur mjög ódýrt mark, óþarfi að fá á sig klafsmark eftir fast leikatriði. Eftir það tóku Selfyssingarnir leikinn yfir og gerðu það vel, þær skoruðu mjög gott mark og áttu það skilið.

Í seinni hálfleiknum byrjuðum við aftur af miklum krafti og gerðum vel þar til þær fá gefins óbeina aukaspyrnu inni í vítateig okkar og skora úr henni,“ sagði Halldór í samtali við mbl.is eftir leik en vendipunktur leiksins var þriðja mark Selfoss sem kom úr óbeinni aukaspyrnu inni í vítateig á 50. mínútu. 

Monica Wilhelm tók boltann upp eftir sendingu frá samherja en Jakub Róg, dómari leiksins, tók ekki eftir því að boltinn hafði greinilega viðkomu í leikmanni Selfoss á leiðinni að markinu.

„Það heyrðu það allir á vellinum að boltinn fór í leikmann Selfoss og bekkurinn hjá Selfossi fór bara að hlæja þegar hann dæmdi. Dómarinn baðst afsökunar eftir leik en þetta eyðilagði mómentið fyrir okkur, við byrjuðum seinni hálfleikinn vel en þriðja mark Selfoss var algjört lykilatriði í leiknum. Það var enn þá von fyrir okkur í 2:1 en það var talsvert minni von í 3:1. Ég er mjög svekktur með þetta,“ sagði Halldór sem hélt þó ró sinni og liðið hans hélt áfram að spila ágætan fótbolta í seinni hálfleik.

„Vorum búin að fara yfir ákveðin atriði og stelpurnar leystu það vel og mér fannst við fara vel með boltann í seinni hálfleiknum. Ég var mun ánægðari með hann, heldur en fyrri hálfleikinn. Stelpurnar bættu þau atriði sem við vildum bæta. Það vantaði bara að klára sóknirnar, gegn mjög sterkri Selfossvörn. Færin voru fá, við fengum tvær hornspyrnur og einhver hálffæri fyrir utan og ágætis leikstöður en það klikkaði klárlega að klára með marki,“ bætti Halldór við.

Tindastóll er í næstneðsta sæti deildarinnar með tvö stig eftir fjóra leiki. Þjálfarinn horfir þó bjartsýnn fram á við.

„Ég hef verið sáttur við heildarframmistöðuna í fyrstu þremur leikjunum. Ég var sáttur við byrjunina á leiknum í dag og seinni hálfleikinn. Við stóðum okkur vel á móti Keflavík og FH og þokkalega á móti Breiðabliki en stigasöfnunin er auðvitað langt frá því sem við ætluðum okkur. Við ætluðum að vinna heimaleikina á móti Keflavík og FH, það eru stóru atriðin sem við sjáum eftir núna. Nú er bara að gíra sig upp í næsta leik og safna orku og reyna að taka Stjörnuna heima,“ sagði Halldór Jón að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert