Ekki með neina þolinmæði fyrir svona hótunum

Þóroddur Hjaltalín er margreyndur knattspynudómari og starfar nú við dómaramál …
Þóroddur Hjaltalín er margreyndur knattspynudómari og starfar nú við dómaramál hjá KSÍ. Eva Björk Ægisdóttir

„Ég get illa tjáð mig um sérstök atvik nema að upplýsa að hótanirnar bárust beint til dómaranna,“ sagði Þóroddur Hjaltalín, sem vinnur að dómaramálum á innanlandssviði Knattspyrnusambands Íslands, KSÍ, í samtali við mbl.is.

Vísaði Þóroddur, sem er fyrrverandi knattspyrnudómari, þar til líflátshótana sem tveimur íslenskum dómurum bárust á undanförnum vikum og KSÍ greindi frá í yfirlýsingu í morgun.

Spurður hvort vitað væri hvaða einstaklingar hefðu viðhaft hótanirnar og hvort möguleiki væri á því að farið verði með málin lengra, til að mynda að kærur verði lagðar fram, sagði Þóroddur að það væri allt í skoðun.

„Það er svolítið erfitt fyrir mig að tjá mig um einstaka mál. Aðallega erum við að vekja athygli á því að þetta er að gerast og það er það sem við erum ekki með neina þolinmæði fyrir,“ sagði hann.

Þóroddur kvaðst ekki geta gefið upp í hvaða deildum dómararnir tveir hafi dæmt.

„Ég eiginlega vil það ekki af því að þá fara kannski einhverjir að spá í hvaða félög þetta eru og allavegana. Ég get bara sagt að þetta var í deildakeppni í meistaraflokki.“

Af sömu orsökum sagðist hann ekki heldur geta gefið upp hvaða tveimur íslensku knattspyrnudómurum hafi borist líflátshótanirnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert