Svakalegur kraftur í FH-konum sló Keflavík alveg útaf laginu þegar liðin mættust á Kaplakrika í kvöld og eftir tvö mörk ásamt þrumuskot í stöng og slá var lagður grunnur að 3:1 sigri en leikið var í fjórðu umferð efstu deildar kvenna í fótbolta.
Óhætt er að segja að leikurinn hafi byrjað með látum því á þriðju mínútu tók Sunneva Hrönn Sigurvinsdóttir fyrirliði aukaspyrnu út við hliðarlínu hægra megin og boltinn kom niður rétt innan við miðja markteigslínu þar sem Arna Eiríksdóttir stýrði honum í markið.
Aðeins fimm mínútum síðar kom næsta mark þegar Elísa Lana Sigurjónsdóttir braust upp að markinu alveg við endalínu hægra megin og náði að gefa fyrir. Þar hófst darraðadans, margir að reyna hitta boltann ýmist til að koma honum frá markinu eða í marki og þar átti Shaina Ashouri síðasta orðið, eða skotið öllu heldur, með marki af stuttu færi.
Mínútu síðar síðar small boltinn í stöng gestanna eftir fast skot Valgerðar og þremur mínútu síðar small boltinn í slánni eftir þrumuskot Elísu Lönu. Bæði flott skot enda gátu leikmenn bara fylgst með þar til smellirnir komu.
Þessi atgangur gerðist á fyrstu tuttugu mínútum en eftir það fóru Keflvíkingar að taka aðeins við sér en voru full fámennir í sókninni þar sem vörn FH var viðbúin. Það mátti hins vegar sjá að Hafnfirðinga langaði mikið í annað mark en tókst ekki að splundra vörn Keflavíkur, sem var búin að jafna sig.
Miðað við kraftinn í FH-konum fyrstu rúmlega tuttugu mínúturnar var engan vegin trúlegt að hér væri á ferðinni neðsta liðið í deildinni. Vörnin mjög traust með Örnu, Heidi og Sunnevu, á miðjunni var vel unnið eins og í sókninni en bæði miðjumenn og sóknarmenn tóku þátt í árásunum á mark gestanna.
Á 56. mínútu skoraði svo Alma Rós Magnúsdóttir fyrir Keflavík með föstu skoti utan teigs neðst í stöngina og inn, eftir að Caroline Van Slambrouck átti fyrirgjöf frá hægri og varnarmaður FH skallaði boltann frá. Staðan 2:1 og allt gat gerst.
Rétt á eftir átti Linli Tu gott skot af stuttu færi en Colleen Kennedy varði á marklínu FH. Það virtist vekja FH-konur af værum blundi og á 65. mínútu skaut Margrét Brynjar Kristinsdóttir í stöngina hjá Keflavík. Tónninn var slegin og FH náði aftur undirtökunum.
Á 89. mínútu kom síðan rothöggið fyrir Keflavík þegar Esther Rós Arnarsdóttir skoraði þriðja mark FH með hnitmiðuðu skoti í vinstra hornið eftir frábæra sendingu þvert út í vítateiginn.
Fjörið var ekki alveg búið því Madison Wolfbauer áttu gott skot af löngu færi, sem fór í stöng Hafnfirðinga.
Keflavíkurkonur áttu ekkert svar við öflugri byrjun FH en tókst að komast að einhverju leiti inní leikinn þegar leið á fyrri hálfleik og þó vörnin væri að mestu í lagi, þrátt fyrir tvö mörk, vantaði aðeins upp vinnslu á miðunni og Linli Tu var nánast ein í sókninni.
Í næstu umferð fór FH í Kópavoginn til að mæta Blikum en Keflavík fær Selfoss í heimsókn suður með sjó. Eftir það er síðan bikarkeppninni þar sem FH heldur í austur gegn sameinuðu liði FHL en Keflavík færi Þór/KA í heimsókn.