Kristján Guðmundsson, þjálfari Stjörnunnar, sagðist í samtali við mbl.is vera gríðarlega sáttur með sigurinn á móti Val í kvöld. Stjarnan vann flottan heimasigur í Bestu deild kvenna í fótbolta, 2:0.
„Við urðum að taka stig, það skipti máli upp á deildina að gera. Með tapi hefðum við misst þær of langt frá okkur, þannig að þetta snérist aðallega um það. Fyrri hálfleikurinn spilaðist mjög vel fyrir okkur, loksins fáum við góð hlaup inn í teiginn og náum að skora tvö góð mörk. Í seinni hálfleik er ein færsla sem klikkar sem við þurfum að vinna í.“
Stjarnan komst í 2:0 í fyrri hálfleik og spilaði liðið afar agaðan leik í seinni hálfleik og voru Valskonur aldrei líklegar til að skora. Kristján sagði að það væri samt alveg hægt að laga ýmsa hluti í leik liðs síns eftir leikinn í kvöld.
„Það er ein færsla hjá liðinu sem er ekki nógu góð og það verður til þess að leikurinn þróast þannig að það liggi á okkur, án þess að þær nái að skapa sér einhver hættuleg færi. Við þurfum að vera duglegri að ýta liðinu upp þegar boltinn fer upp völlinn. Við vinnum í því. Mér fannst við ekki heldur ná að tengja uppspilið okkar nægilega vel í seinni hálfleik, það er eitthvað sem við höfum séð áður í leikjum hjá okkur. Við þurfum aðeins að læra að stjórna leikjum betur og munum nota æfingarnar okkar til að fara betur yfir það.“
Stjarnan hefur aðeins fengið á sig tvö mörk í fyrstu fjórum umferðum deildarinnar. Kristján hrósaði Erin Katrina McLeod, markverði Stjörnunnar, eftir leikinn.
„Við vissum hvernig markmaður hún væri, hún spilar með okkur fyrir þremur árum síðan og skipti gríðarlega miklu máli þá. Núna er hún orðin 40 ára og þarf alveg að hafa fyrir þessu en hún er alveg gríðarlega góður markmaður og örugg í öllum sínum aðgerðum. Hún hefur alveg gríðarlegt keppnisskap og hefur komið með hárrétt hugarfar inn í liðið okkar.“
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir spilaði sinn fyrsta leik á tímabilinu í dag og skoraði hún mark. Úlfa er í háskóla úti í Bandaríkjunum á veturna og átti Kristján vart orð til að lýsa henni.
„Úlfa Dís er alveg sérstakt eintak, hún er engri lík. Hún sýndi það strax á æfingum þegar hún mætti eftir skólann hvað hún ætlaði sér og þú sást það í dag. Hún er alveg einstakur leikmaður og ekkert hægt að lýsa henni.“
Stjarnan fer í ferðalag á Sauðárkrók næsta þriðjudag og býst Kristján við erfiðum leik.
„Það er stemning á Króknum þessa dagana og það verður gaman að fara þangað. Mótið er rétt að byrja og við þurfum að safna stigum. Við höldum okkur inni í þessu með því að vinna í dag, ég vil gefa þessu nokkrar umferðir og sjá hvernig mótið mun þróast en ég held að það gæti orðið mjög spennandi.“