Ísland mætir Austurríki í sumar

Agla María Albertsdóttir og Nina Burger í baráttu um boltann …
Agla María Albertsdóttir og Nina Burger í baráttu um boltann í leik þjóðanna á EM 2017. AFP/Daniel Mihailescu

Ísland mætir Austurríki í A-landsleik kvenna í knattspyrnu í sumar en vináttuleikur þjóðanna  fer fram í Wiener Neustadt 18. júlí.

Þetta verður aðeins annar landsleikur þjóðanna frá upphafi en Austurríki vann Ísland 3:0 í lokakeppni Evrópumótsins í Hollandi árið 2017.

Austurríska liðið kom þá mjög á óvart og komst í undanúrslit þar sem það tapaði fyrir Dönum í vítaspyrnukeppni. 

Liðið náði aftur góðum árangri á síðasta Evrópumóti á Englandi síðasta sumar þar sem það sló Norðmenn út í riðlakeppninni og komst í átta liða úrslit þar sem það beið lægri hlut fyrir Þýskalandi, 2:0.

Austurríki er í 18. sæti á heimslista FIFA en Ísland er í 14. sæti.

Þar með liggur fyrir hverjir tveir síðustu leikir liðsins í undirbúningnum fyrir Þjóðadeild UEFA verða en Ísland mætir Finnlandi í vináttuleik á Laugardalsvellinum fjórum dögum áður, 14. júlí.

Íslenska liðið leikur síðan gegn Danmörku, Þýskalandi og Wales í Þjóðadeildinni í haust.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert