Sannfærandi Stjörnusigur gegn Val

Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir fagnar eftir að hafa komið Stjörnunni …
Úlfa Dís Kreye Úlfarsdóttir fagnar eftir að hafa komið Stjörnunni í 2:0 í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Stjarnan tók á móti Val í fjórðu umferð Bestu deildar kvenna í kvöld. Leikið var í Garðabæ og urðu lokatölur 2:0, Stjörnunni í vil.

Eftir leik er Stjarnan með 7 stig í 2. sæti deildarinnar en Valur er einnig með 7 stig í 3. sæti.

Leikurinn fór rólega af stað og lítið gerðist þar til á 8. mínútu þegar Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði fyrir Stjörnuna. Úlfa Dís Úlfarsdóttir fékk þá boltann úti á vinstri kanti og átti góða fyrirgjöf, þar barðist Andrea Mist Pálsdóttir vel fyrir boltanum og hrökk hann út á Gunnhildi sem átti gott skot með vinstr fæti sem Fanney Inga Birkisdóttir, markmaður Vals, réði ekki við.

Það var svo á 26. mínútu sem Úlfa Dís tvöfaldaði forystu heimakvenna. Lillý Rut Hlynsdóttir, varnarmaður Vals, reyndi þá að spila út úr vörninni en Úlfa vann af henni boltann, fór framhjá Fanney í markinu og skoraði gott mark. Stjarnan komin í 2:0 forystu.

Valskonur voru aldrei líklegar til að skora í fyrri hálfleik og ef eitthvað er þá var Stjarnan líklegri til að bæta við marki. Aðalbjörn Heiðar Þorsteinsson, góður dómari leiksins, flautaði til hálfleiks og Stjörnukonur yfir, 2:0.

Valskonur fengu sitt fyrsta færi í leiknum á 52. mínútu þegar Ída Marín Hermannsdóttir fékk fyrirgjöf frá vinstri og skaut í fyrsta í en skot hennar fór yfir markið.

Á 78. mínútu meiddist Hanna Kallmeier illa á hné og var hún borin útaf á börum, það var strax ljóst að meiðslin voru alvarleg og erfitt var að horfa upp á Hönnu liggjandi sárþjáða á vellinum.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Stjörnunnar í kvöld.
Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir skoraði fyrsta mark Stjörnunnar í kvöld. Ljósmynd/Kristinn Steinn

Jasmín Erla Ingadóttir slapp ein í gegn á fjórðu mínútu uppbótartíma en skot hennar fór framhjá markinu.

Eftir þetta gerðist lítið sem ekkert í leiknum og lauk honum með sanngjörnum sigri Stjörnunnar, 2:0.

Stjörnukonur fara næst í langferð á Sauðárkrók þar sem þær mæta Tindastóli en Valur mætir ÍBV á heimavelli í næstu umferð.

Stjarnan 2:0 Valur opna loka
90. mín. Uppbótartími verður að minnsta kosti 10 mínútur. Þetta er auðvitað vegna meiðsla Hönnu Kallmeier.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert