Fyrsti sigur Selfyssinga

Fyrirliðarnir Unnur Dóra Bergsdóttir og Bryndís Rut Haraldsdóttir í baráttu …
Fyrirliðarnir Unnur Dóra Bergsdóttir og Bryndís Rut Haraldsdóttir í baráttu á Selfossi í kvöld. mbl.is/Óttar Geirsson

Selfoss vann öruggan sigur á Tindastóli í Bestu deild kvenna í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur í rigningunni á Selfossvelli urðu 3:1.

Þetta var fyrsti sigur Selfoss í deildinni í sumar og liðið lyftir sér upp í 6. sætið með fjórum stigum. Tindastóll er í neðsta sæti með tvö stig.

Leikurinn fór mjög hægt af stað á blautum grasvellinum á Selfossi. Stólarnir leituðu upp kantana og reyndu fyrirgjafir en voru fáliðaðir í vítateig Selfoss. Á 13. mínútu fengu gestirnir síðan hornspyrnu og upp úr henni skoraði Melissa Garcia auðveldlega með skalla af stuttu færi, 0:1.

Þegar tuttugu mínútur voru liðnar jókst sóknarþungi Selfyssinga verulega og liðskonur héldu uppi góðri pressu það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Uppskeran var tvö mörk. Lúmskt skot frá Kötlu Maríu Þórðardóttur á 36. mínútu, sem líklega átti að vera fyrirgjöf, 1:1, og sjö mínútum síðar skoraði Eva Lind Elíasdóttir glæsilegt skallamark eftir fyrirgjöf Barbáru Sólar Gísladóttur.

Staðan var 2:1 í hálfleik og þriðja mark Selfyssinga kom svo strax á 5. mínútu seinni hálfleiks og það gerði endanlega út um leikinn. Jakub Róg, dómari leiksins, mat það svo að leikmaður Tindastóls hefði átt sendingu aftur á markmann, sem Monica Wilhelm hirti með höndunum. Ekki var annað að sjá en að sendingin aftur hefði átt viðkomu í leikmanni Selfoss en dómurinn stóð og upp úr óbeinu aukaspyrnunni skoraði Katla María auðveldlega, 3:1.

Leikurinn róaðist mikið eftir þetta og síðasti hálftíminn var nær algerlega tíðindalaus. Bæði lið komu sér í álitlegar stöður en færin voru af skornum skammti. Þau fáu sem litu dagsins ljós voru verðug verkefni fyrir markverðina sem stóðu í vegi fyrir fleiri mörkum.

Selfoss 3:1 Tindastóll opna loka
90. mín. Grace Sklopan (Selfoss) fer af velli
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert