Pétur Pétursson, þjálfari Vals, sagði í samtali við mbl.is sitt lið hafa verið ólíkt sjálfu sér þegar Valur tapaði fyrir Stjörnunni í Bestu deild kvenna í fótbolta í kvöld, 2:0.
„Mér fannst við ekki góðar í fyrri hálfleik, mörkin sem við fáum á okkur voru ódýr og ólík okkur. Það skapaði vesen en mér fannst við koma vel út í seinni hálfleikinn þar sem við reyndum að ná inn marki en það gekk ekki.“
Valsliðið átti ekki góðan dag í dag. Pétur sagði svona hluti gerast einstaka sinnum í fótbolta.
„Stundum skeður þetta í fótbolta, því miður skeði þetta í dag. Stundum færðu mörk á þig og þá verður vesen en yfirleitt standa þær sig frábærlega í vörninni.“
Hanna Kallmaier, leikmaður Vals, meiddist alvarlega undir lok leiks og var borin af velli. Pétur vissi ekki stöðuna á henni.
„Hún fór beint upp á spítala í myndatöku þannig við vitum ekkert fyrr en á morgun hvað er að gerast.“
Valsliðið er í meiðslavandræðum þessa dagana. Elísa Viðarsdóttir, fyrirliði liðsins, var ekki með í dag vegna meiðsla og nú meiðist Hanna. Pétur var áhyggjufullur eftir leik.
„Það er vont að missa út leikmenn núna, við erum ekki með það marga leikmenn. Elísa var ekki með okkur í dag og fleiri til. Það er slæmt ef þetta eru alvarleg meiðsli hjá Hönnu, sérstaklega fyrir hana sjálfa. Það kemur í ljós með Elísu hvort hún verði klár í næsta leik eða leikinn á eftir.“
Valur mætir ÍBV í næstu umferð og segir Pétur það vera kjörið tækifæri til að svara fyrir tap kvöldsins.
„Næsti leikur eftir tapleik er alltaf kjörið tækifæri til að bæta sig og vonandi gerum við það.“